Vestlendingar vinna viðskiptaáætlanir

SSVFréttir

Kári Viðarsson kynnir verkefnið sitt á úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands 1. október sl.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) settu af stað verkefni haustið 2020 í samstarfi við Pál Kr. Pálsson ráðgjafa og fyrirtæki hans Skyggni ehf. um gerð viðskiptaáætlana.  Auglýst var eftir áhugasömum fyrirtækjum og einstaklingum og sóttu 14 aðilar um.  Ákveðið var að velja 5 umsóknir til frekari vinnu og fengu þær allar styrk að upphæð 500 þúsund til að vinna  viðskiptaáætlanir undir leiðsögn Skyggnis ehf.  Verkefnið var fjármagnað af Sóknaráætlun Vesturlands.

Þeir aðilar sem unnu sínar viðskiptaáætlanir undir leiðsögn Páls ehf. voru;

  • Skipavík ehf.; Víkingaskip úr trefjaplasti
  • Arnaldur Máni Finnsson; Styrkleikamiðstöð á Snæfellsnesi
  • Hraunsmúli ehf.: Ræktun jarðepla og þróun úrvinnsluafurða
  • Kári Viðarsson: Sjóböð í Krossavík
  • Hulda Guðmundsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Kristín Sverrisdóttir: Búkona, sölubíll og matvagn.

Vinna við viðskiptaáætlanirnar hófst í nóvember 2020.   Að vinna viðskiptaáætlun er margþætt verkefni og að ýmsu að hyggja.  Helstu verkþættir voru;

  1. Lýsing á hugmyndinni og þörfinni.
  2. Markaðsgreining með áætlun um væntanlega sölu fyrstu 4 árin eftir að lausnin kemur á markað.
  3. Framkvæmdaáætlun; verk-, tíma- og kostnaðaráætlun fyrir þróun lausnarinnar.
  4. Áætlun um heildarfjárþörf við að hrinda verkefninu í framkvæmd og fjármögnun fjárþarfar.
  5. Fjárhagslíkön (rekstraráætlun, áætlaður efnahagur og sjóðstreymi fyrstu 4 ára eftir að sala hefst.
  6. Arðsemisgreining og núvirt verðmat viðskiptatækifærisins.

Allir þátttakendur luku vinnu sinni s.l. sumar.  Þrír af fimm aðilum sóttu síðan um styrk í Uppbyggingarsjóð Vesturlands síðla sumars og fengu allar þrjár umsóknirnar styrk úr sjóðnum.  Þess má geta að umsókn Kára Viðarssonar um Sjóböð í Krossavík fékk hæsta styrk sem úthlutað var eða 3.700.000.-

Verkefnið um gerð viðskiptaáætlana heppnaðist einstaklega vel og sýnir að jarðvegur á Vesturlandi er frjór þegar kemur að ýmiskonar nýsköpun og vonandi eigum við eftir að sjá öll þessi verkefni rætast og komast á framkvæmdastig.

Páll Kr. Pálsson kynnir verkefnið á úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands 1. október sl.