Menningarfulltrúar landshlutanna funda á Vesturlandi

SSVFréttir

MENNINGARFULLTRÚAR LANDSHLUTANNA

 

Árlega hittast menningarfulltrúar og verkefnastjórar menningarmála hjá landshlutasamtökunum og funda um hin ýmsu mál er snúa að þeirra starfi. Þá er notað tækifærið til að skoða menningarstarf sem eru í gangi á hverjum stað fyrir sig og var engin undantekning á því í ár. Fundirnir eru haldnir til skiptis á milli landshluta og í ár var komið að Vesturlandi að vera í hlutverki gestgjafa.

Dagskrá hófst með fundarsetu á Breið, þróunar- og nýsköpunarseturs á Akranesi, en svo var Byggðasafnið í Görðum heimsótt en safnið hlaut nýverið verðskuldaða tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna. Eftir hádegishressingu hjá Kaju var brunað í Borgarnesi og hlýtt á kynningu Braga Þórs Svavarssonar um skólaþróunarverkefnið „Menntun fyrir störf framtíðar“ í Menntaskóla Borgarfjarðar og fundað með verkefnisstjórum rannsóknarseturs skapandi greina, sem verið er að vinna að í Háskólanum á Bifröst. Því næst var vinnustofa listakonunnar Michelle Bird heimsótt og dagurinn endaði með kvöldverði og gistingu að Hótel Húsafelli. Eftir fundarhöld næsta dag var Snorrastofa í Reykholti heimsótt auk þess sem kíkt var við í Krauma fyrir heimferð.

Þessir staðir sem hér eru upptaldir eiga það sameiginlegt að hafa með einum eða öðrum hætt notið stuðnings frá Sóknaráætlun Vesturlands, t.d. í formi ráðgjafar eða styrkja Uppbyggingarsjóðs Vesturlands. Sóknaráætlun er starfandi í öllum landshlutunum og eru það meginverkefni menningarfulltúanna að hafa umsjón með og koma þeim verkefnum og áherslum í framkvæmd sem þar eru sett á oddinn. Ljóst er að mikil sóknarfæri eru á landsbyggðinni er varðar uppbyggingu menningartengrar starfsemi og hlakkar hópurinn til að takast á við þau verkefni.

Menningarfulltrúar og verkefnastjórar menningarmála hjá landshlutunum eru:

Ástrós Elísdóttir hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Hildur Halldórsdóttir hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra
Logi Gunnarsson hjá Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum
Signý Ormarsdóttir hjá Austurbrú
Sigursteinn Sigurðsson hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi
Skúli Gautason hjá Vestfjarðastofu
Þórður Freyr Sigurðsson hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga

Auk þess tók Svala Svavarsdóttir verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Vesturlands hjá SSV þátt í dagskránni

Sigursteinn Sigurðsson
Menningarfulltrúi