Fjármál sveitarfélaga: Íbúaþróun og veltufé frá rekstri

VífillFréttir

Í dag kom út nýr Hagvísir sem fjallar um fjármál sveitarfélaga þar sem einblínt var á samhengi íbúaþróunar, fjárfestinga og veltufjár frá rekstri í sveitarfélögum á Vesturlandi. Veltufé frá rekstri er framlag rekstrar upp í afborganir af lánum og fjárfestingar. Tilefni viðfangsefnisins voru fréttir snemma á árinu 2023 af óvenjulegri stöðu í Sveitarfélaginu Árborg þar sem fjárhagsstaðan var slæm þrátt fyrir mikla fjölgun íbúa undanfarin ár. Þá varð SSV hugsað til fjárhagsstöðu sveitarfélaga á Vesturlandi þar sem fjölgun hefur orðið og nokkuð mikil yfir langan tíma en ekki síður hinna þar sem fækkun hefur orðið. Fyrirfram hefði mátt búast við að veltufé frá rekstri ykist við fjölgun íbúa og að það væri eitthvað hærra en fjárfestingar yfir langan tíma en hefur það verið reyndin á Vesturlandi? Til að gera langa sögu stutta skal þess getið að fleiri sveitarfélög á Vesturlandi skiluðu hærra veltufé frá rekstri en sem nam fjárfestingum samanlagt árin 2009-2022. Þessi munur var hins vegar neikvæður í 28 sveitarfélögum af 64, þ.m.t. Sveitarfélaginu Árborg og Reykjavíkurborg þar sem mínusinn var reyndar mestur í krónum talið. Hagvísinn má nálgast í heild sinni hér (SMELLIÐ).