Logi Einarsson, menningarmálaráðherra með Elfu Lilju Gísladóttur, verkefnastjóra Listar fyrir alla, Anna Sigríður Arndal frá Vestfjarðarstofu, Signý Ormarsdóttir hjá Austurbrú og feðgarnir Sigursteinn Sigurðsson menningarfulltrúi og Dagur Sigurður fyrir hönd SSV.
Á degi barnsins, sem er alltaf síðasta sunnudaginn í maí-mánuði var úthlutað styrkjum úr Barnamenningarsjóði. SSV var þá úthlutað hæsta styrknum, eða 5,5 milljónum til að halda Barnamenningarhátíð Vesturlands 2025. Sigursteinn Sigurðsson menningarfulltrúi veitti styrknum viðtöku, en leitaði liðsinnis sonar síns Dags Sigurðar 9 ára við verkefnið. Logi Einarsson, menningarmálaráðherra veitti styrkina við hátíðlega athöfn að Höfuðstöðinni í Reykjavík.
Veittir voru styrkir til 47 verkefna fyrir um 100 milljónir króna en sjóðnum bárust 138 umsóknir fyrir um 450 milljónir. Eins og fyrr sagði hlaut SSV hæsta styrkinn en auk þess hlutu barnamenningarhátíðarnar BRAS á Austurlandi og Púkinn á Vestfjörðum styrki að sömu upphæð. Logi sagði í ræðu að fjöldi umsókna bæri vott um aukinn áhuga á barnamenningu á Íslandi sem væri afar ánægjulegt, en aldrei hafa borist fleiri umsóknir til sjóðsins.
Þar að auki má nefna að Safnahús Borgarfjarðar hlaut styrk að upphæð 690.000 fyrir verkefnið Samveru í safnahúsi sem gengur útá að bjóða börn velkomna í safnið og njóta þeirrar fjölbreyttu menningar sem þar er uppá að bjóða.
Hvað á hátíðin að heita?
Barnamenningarhátíð Vesturlands verður haldin í fyrsta skipti með breyttu sniði haustið 2025, en þetta verður í fyrsta skipti sem ein stór barnamenningarhátíð er haldin um allan landshlutann í einu.
Að því tilefni var blásið til samkeppni meðal barna á Vesturlandi um heiti á hátíðinni og var umsóknarfrestur 24. maí síðastliðinn. Vestlensk börn létu alls ekki á sér standa og bárust hvorki meira né minna en 164 tillögur í keppnina! Nýtt heiti hátíðarinnar verður tilkynnt nú í sumarbyrjun.
Styrkhafar að lokinni úthlutun. Ljósmynd fengin af vef Menningar,- háskóla- og nýsköpunarráðuneytis. Ljósmynd: Valgarð Gíslason