Umræða og bókun stjórnar SSV um stöðu landbúnaðar á Vesturlandi.

SSVFréttir

Á síðasta fundi stjórnar SSV varð töluverð umræða um stöðu landbúnaðar á Vesturlandi og frumvarp landbúnaðarráðherra um innflutning á ófrystu kjöti.  Vegna þess samþykkt stjórn eftirfarandi bókun um málið:

Tímamót eru að verða í umhverfi landbúnaðar með tilkomu aukins innflutnings á kjöti til landsins, ef tekið er mið af frumvarpi landbúnaðarráðherra um innflutning á ófrystu kjöti. Vesturland er landbúnaðarhérað og því er umhverfi landbúnaðar afar mikilvægt fyrir svæðið. Einnig þarf að hafa í huga að landbúnaðar hefur líka mikil áhrif á vöxt og viðgang annarra atvinnugreina s.s. ferðaþjónustu.

Ef frumvarp landbúnaðarráðherra verður að lögum leggur stjórn SSV áherslu á eftirfarandi.

  • Ráðuneytið tryggi með reglum og eftirfylgni að landbúnaðarvörur verði merktar upprunalandi með tryggum hætti þannig að neytendur verði meðvitaðir um í hvaða landi varan er upprunalega framleidd.
  • Að gerðar verði sömu kröfur og gilda við framleiðslu innlendra landbúnaðarvara og þeirrar innfluttu, t.d. varðandi aðbúnað og lyfjagjöf.
  • Í dag er það þannig að söluaðilar á landbúnaðarvörum verða að taka til baka vörur í gegnum skilaskyldu. Mikilvægt er að sömu reglur gildi um innlendar sem erlendar landbúnaðarvörur í þessum efnum.
  • Afar mikilvægt er að halda við þeim varnarlínum sem til staðar eru þannig að hægt verði að vernda ákveðin svæði ef upp koma sjúkdómar sem tengjast innflutningi á kjöti.

Mikil umræða er um að með auknum innflutningi á landbúnaðarvörum og þá helst ófrosnu kjöti aukist líkurnar á að sjúkdómar sem herja á erlenda bústofna berist til landsins. Því er afar mikilvægt að lögð verði fram sú tölfræði og þær greiningar sem unnar hafa verið um möguleg áhrif innfluttar vöru á íslenska landbúnaðarvöru. Stjórn vill árétta ánægju sína með gæði íslenskra landbúnaðarvara og hefur fulla trú á þeim í samkeppni. Mikilvægt er hins vegar að stjórnvöld tryggi að samkeppnin verði á jafnréttisgrundvelli og að neytendum standi áfram til boða gæða landbúnaðarvörur hvaðan úr heiminum sem þær koma.