Í síðustu viku voru ráðnir tveir nýir starfsmenn til starfa SSV, en ráðningarferlið var unnið með Hagvangi.
Hrafnhildur Tryggvadóttir var ráðin í starf atvinnuráðgjafa, en 12 umsóknir bárust um starfið. Hrafnhildur er með BSc próf í náttúruvísindum og umhverfisfræði frá LBHÍ og master í forustu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði í 9 ár sem framkvæmdastjóri Upplýsinga- og kynningarmiðstöðvar Vesturlands og starfaði í 4 ár sem ráðgjafi í umhverfismálum hjá Environice. Frá 2015 hefur hún starfað hjá Borgarbyggð, fyrst sem verkefnisstjóri á umhverfis- og skipulagssviði og síðar sem deildarstjóri umhverfis- og framkvæmdamála. Við sjáum fyrir að reynsla hennar af umhverfis- og loftlagsmálum, landbúnaðarmálum, ferðaþjónustu og almennt af starfsemi sveitarfélaga muni nýtast vel og auka breiddina í ráðgjafahópnum okkar.
Kristján Guðmundsson var ráðinn í starf verkefnisstjóra markaðsmála á áfangastaða- og markaðssviði, en 19 umsóknir bárust um starfið. Hann er með BSc próf íferðamálafræði og er í mastersnámi í markaðsfræði við Háskólann á Bifröst. Kristján starfaði hjá Markaðsstofu Vesturlands frá 2013 til 2018 og þar af sem forstöðumaður í fjögur ár. Hann starfaði síðan sem sölu- og markaðsstjóri hjá Hótel Húsafelli og umsjónarmaður orlofshúsa í Svignaskarði samhliða námi. Kristján var ráðinn tímabundið í starfi verkefnastjóra á áfangastaða- og markaðssviði hjá SSV s.l. haust. Kristján hefur mikla þekkingu og reynslu af ferðaþjónustu á Vesturlandi og samstarfi við markaðs- og stoðþjónustu ferðamála bæði í heimahéraði og á landsvísu sem mun nýtast vel í starfi verkefnisstjóra.