Ný könnun landshlutasamtaka sveitarfélaganna á búsetuskilyrðum og hamingju landsmanna

VífillFréttir

Vestmannaeyjar, Akureyri og Eyjafjörður eru þau svæði sem best koma út í heildarstigagjöf í nýrri skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags. Að könnuninni stóðu landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu ásamt Byggðastofnun og var hún gerð á íslensku, ensku og pólsku í september og október síðastliðnum. Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 10.253 þátttakendum. Þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun um þessi efni nær til allra svæða landsins og er markmiðið að hún verði eftirleiðis gerð á 2-3 ára fresti og geti verið sveitarfélögum og stjórnvöldum mikilvægt tæki í búsetu- og byggðaþróun.

Spurt um 40 búsetuþætti

Í könnuninni var landinu skipt upp í 24 svæði og annaðist Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gerð úrtaks. Að könnuninni og úrvinnslu niðurstaðna unnu Vífill Karlsson, hagfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Helga María Pétursdóttir, hagfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Könnunin byggir á hliðstæðri íbúakönnun sem gerð var árið 2017 en könnunin nú var mun viðameiri, auk þess sem fyrri könnun náði ekki til allra svæða landsins. Á þeim svæðum sem báðar kannanirnar náðu til má í sumum tilfellum sjá viðhorfsbreytingar hjá íbúum á þessu tímabili.

Spurt var um 40 atriði sem snerta búsetuskilyrði. Sem dæmi um fjölbreytileika í efnisatriðum má nefna friðsæld, loftgæði, skólamál, atvinnuöryggi, launatekjur, húsnæðismál, nettengingar, vegakerfi, vöruverð, þjónustu við fatlaða og aldraða, rafmagn, ásýnd bæja og sveita, almenningssamgöngur og margt fleira. Efnisatriðin snúa því að samfélagsinnviðum sem og þjónustuþáttum á forræði ríkis og/eða sveitarfélaga.

Lægsta einkunn íbúa í Dölum og á sunnanverðum Vestfjörðum

Heildareinkunn var lægst í Dölum og á sunnanverðum Vestfjörðum. Í samanburði við önnur búsetusvæði landsins fá íþróttir (tækifæri til íþrótta/tómstundaiðkunar), umferðaröryggi og vöruverð lægsta einkunn í Dölum. Þessi tvö svæði gefa einnig almenningssamgöngum lága einkunn í samanburði við önnur svæði, sem og farsímasambandi, þjónustu við fatlaða og vegakerfinu. Dalamenn reyndust einnig óánæðastir þeirra sem könnunin náði til með vöruverð, umferðaröryggi, mannlíf og laun.

Þó íbúar í Vestmannaeyjum, á Akureyri og við Eyjafjörð mælist með hæsta heildarstigagjöf í könnuninni þá er mismunandi hvaða þætti þeir eru ánægðir með. Í samanburði við önnur svæði gefa Vestmannaeyingar mannlífi, skipulagsmálum, umferð, umferðaröryggi, íbúðaframboði, framfærslu og viðhorfi til sveitarfélags góða umsögn. Akureyringar eru jákvæðastir gagnvart háskóla, framhaldsskóla, almenningssamgöngum, íbúða-framboði, vegakerfi, menningu, umhverfismálum og sorpmálum.

Grindvíkingar ánægðir með sitt sveitarfélag

Afstaða til ýmissa málaflokka er afar breytileg milli landsvæða. Þannig eru Grindvíkingar jákvæðastir gagnvart sínu sveitarfélagi en meðal þeirra óánægðustu af búsetusvæðunum hvað varðar heilsugæslu og almenningssamgöngur. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru meðal þeirra sem verst komu út í viðhorfi til útlendinga, voru óánægðastir allra í samanburðinum með umferðarmál en glaðastir með möguleika til eigin atvinnureksturs og fjölbreytni í atvinnu. Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum voru hins vegar ánægðastir allra með tónlistarskóla og deila með íbúum Skaftafellssýslna mestri ánægju allra með náttúruna.

Áberandi er lítil ánægja með framboð leiguíbúða heilt yfir á landinu en jákvæðastir með þennan málaflokk eru þó Akureyringar, íbúar í Reykjanesbæ og í Vestmannaeyjum. Óánægja með framboð leiguíbúða er mest á Vestfjörðum, Ströndum og Reykhólum, sem og í Skaftafellssýslum.

Vöruverð, vöruúrval, vegakerfi og laun

Mikill munur reyndist á svörum milli landsvæða hvað varðar vöruúrval, vöruverð og vegakerfið. Vöruverð fær almennt frekar lága einkunn en íbúar á Akranesi, við Hvalfjörð, á Akureyri, Borgarfjarðarsvæði og í Vestmannaeyjum eru jákvæðastir hvað það varðar. Óánægðastir með vöruverð eru íbúar í Dölum, á Ströndum og Reykhólum, á sunnanverðum Vestfjörðum og í Austur-Húnvatnssýslu.

Höfuðborgarbúar eru ánægðastir landsmanna með vöruúrval og fast á hæla þeim koma íbúar í Vestur-Húnavatnssýslu og á Akureyri. Lægstu einkunn fyrir vöruúrval gáfu íbúar Sveitarfélagsins Voga og Dalamenn.

Akureyringar, íbúar í Vogum og á höfuðborgarsvæðinu gáfu vegakerfinu hæstu einkunnirnar en íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum, í Dölum og Vestur-Húnvetningar gáfu því lægstu einkunnir þeirra sem svöruðu.

Munur á afstöðu gagnvart launum var í meðallagi milli landsvæða. Þar komu íbúar í Fjarðabyggð, á sunnanverðum Austfjörðum, í Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu best út en íbúar í Dölum, í Austur-Húnavatnssýslu og á Borgarfjarðarsvæðinu reyndust óánægðastir með launaþáttinn. Borgfirðingar reyndust einnig áberandi neikvæðastir allra gagnvart skipulagsmálum.

Áhrif faraldursins merkjanleg

Þegar niðurstöðurnar eru bornar saman við fyrri íbúakönnun árið 2017 sést að heildareinkunn lækkaði mest í Reykjanesbæ á þessu tímabili. Hins vegar hækkuðu einkunnir í Suðurnesjabæ og í Grindavík frá fyrri könnun.

Áhrifa kórónuveirufaraldursins gætir bæði á neikvæðan og jákvæðan hátt þegar niðurstöður kannananna eru bornar saman. Auk Reykjenesbæjar er þetta vel sýnilegt í Skaftafellssýslum þar sem mikill samdráttur hefur orðið í ferðaþjónustu með tilheyrandi afleiðingum í atvinnulífi. Aukin áhersla sem víða kemur fram á þjónustu við fólk í fjárhagsvanda bendir einnig til tengsla við faraldurinn. Víða er mælanleg aukin jákvæðni með húsnæðismarkað á svæðum sem og með minni umferðarþunga á vegum, sem hvort tveggja má m.a. tengja minni umsvifum í ferðaþjónustu. Óánægja er mælanleg hvað varðar vöru- og þjónustumarkaðinn sem kann að skýrast af veikingu krónunnar, lokunum og takmörkunum vegna faraldursins.

Hamingjusamir nátttúruunnendur!

Stærsti hópur þátttakenda mat hamingju sína 8 á skalanum 1-10. Lítill munur mældist á hamingju íbúa eftir landsvæðum en íbúar í Vestmannaeyjum og Snæfellsnesi reyndust þó hamingjusamastir og marktækt hamingjusamari en á öðrum svæðum landsins. Íbúar höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar voru hins vegar marktækt óhamingjusamari en aðrir í könnuninni.

Þættir á borð við friðsæld, náttúru og loftgæði fengu almennt nokkuð háar einkunnir þátttakenda. Dalamenn eru t.d. ánægðastir með loftgæði en íbúar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri óánægðastir með þau. Hæstu einkunnirnar fyrir náttúruna gáfu íbúar á norðanverðum Vestfjörðum en almennt eru landsmenn þó ánægðir með íslensku náttúruna og lítill munur á viðhorfi þeirra til hennar.

Skýrsluna í heild má nálgast hér.

Frekari upplýsingar:

Vífill Karlsson, ráðgjaf Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, í síma 695-9907 eða vifill@ssv.is