Tvær tilnefningar til evrópskru arkitektarverðlaunanna frá Vesturlandi

SSVFréttir

Nú hefur verið tilkynnt um tilnefningar til evrópsku arkitektaverðlaunanna, hinna virtu Mies van der Rohe EU Prize for Contemporary Achitecture. Þrjár íslenskar byggingar komast á þennan eftirsótta lista en af þeim eru tvær staðsettar á Vesturlandi. Þetta eru annars vegar Drangar sem er gistiheimili á Skógarströnd í Dalabyggð og eru hönnuð af arkitektastofunni Studio Granda. Hins vegar er það Guðlaug á Akranesi eftir Basalt arkitekta sem hefur hlotið einróma lof í hönnunarheiminum. Báðar þessar byggingar eru nærumhverfi sínu til mikils sóma og hafa átt ríkan þátt í að vekja jákvæða athygli á sínum svæðum. Að undanförnu hefur komið í ljós að hönnun og menning leika mikilvægt hlutverk í uppbyggingu á ferðaþjónustu og bera þessi verkefni merki um það. Þess má svo geta að Drangar hlutu Hönnunarverðlaun Íslands nú á dögunum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bygging á Vesturlandi er tilnefnd til Mies van der Rohe verðlaunanna, en áður hafði Stöðin (nú Grillhúsið) í Borgarnesi eftir Krads verið tilnefnd.

Nánar má lesa um tilnefningarnar á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og eru myndir fengnar af þeirra vef.

Guðlaug Mynd: Hönnunarmiðstöð Drangar Mynd: Hönnunarmiðstöð