Íbúakönnun 2020: Samantekt á helstu niðurstöðum fyrir Vesturland

SSVFréttir

Íbúasvæði Vesturlands eru fjögur í könnuninni, þ.e. Dalir, Snæfellsnes, Borgarfjarðarsvæði, Akranes og Hvalfjörður (saman). Heildarfjöldi svara á Vesturlandi var 1.635. Íbúar á þessum svæðum voru einnig spurðir í hliðstæðri könnun árið 2017.

Viðhorf til sveitarfélags
Jákvæðastir íbúa Vesturlands í afstöðu til síns sveitarfélags voru íbúar á Snæfellsnesi. Neikvæðastir í afstöðu til síns sveitarfélags voru íbúar í Dölum.

Búsetuskilyrði
Íbúar Akraness og við Hvalfjörð voru meðal þeirra jákvæðustu í könnuninni á landinu hvað varðar almenningssamgöngur, þjónustu dvalarheimila, farsímakerfi, þjónustu við fatlaða, aðstoð við fólk í fjárhagsvanda, þjónustu framhaldsskóla, grunnskóla og tónlistarskóla, heilsugæslu, framboð íbúða, íþróttir, unglingastarf, nettengingar og rafmagn. Þeir voru jákvæðastir allra á landinu hvað leikskólaþjónustu og vöruverð snertir. Íbúar Akraness og  við Hvalfjörð voru einna helst óánægðir með skipulagsmál, náttúru, menningu, mannlíf og friðsæld.

Íbúar Borgarfjarðarsvæðis gáfu í samanburði við aðra dvalarheimilaþjónustu háa einkunn, sem og þjónustu framhaldsskóla, háskóla og leikskóla, auk þess að vera meðal þeirra ánægðustu með vöruverð. Borgfirðingar reyndust hins vegar óánægðastir allra í könnuninni með skipulagsmál.

Dalamenn komu verst af öllum þátttakendum á landinu út úr þáttum á borð við afþreyingu, almenningssamgöngur, farsímaþjónustu, framhaldsskóla, framfærslu sína almennt, háskóla, íþróttir, laun, mannlíf, umferðaröryggi, þjónustu við útlendinga og vöruverð. Þeir voru hins vegar ánægðastir allra með loftgæði og gáfu heilbrigðisþjónustu og friðsæld einnig háa einkunn í samanburði við aðra.

Íbúar á Snæfellsnesi gáfu ásýnd hæsta einkunn allra og voru einnig ánægðir með loftgæði, sorpmál, umferðaröryggi og  umhverfismál. Snæfellingar voru meðal þeirra sem verst komu út hvað nettengingar varðar.

Í heildarstigagjöf fyrir landsvæðin 24 og þau 40 búsetuskilyrði sem spurt var um var Snæfellsnes í 5. sæti, Akranes og Hvalfjörður í 6. sæti,  Borgarfjarðarsvæði í 21. sæti og Dalir í 23. sæti.

Breytingar frá könnun árið 2017

Þegar svör úr könnuninni nú voru borin saman við hliðstæða könnun árið 2017 sjást breytingar á viðhorfi íbúa á Vesturlandi í ýmsum málaflokkum.

Íbúar á Akranesi og við Hvalfjörð telja að framboð á íbúðum til sölu, þjónusta við aldraða og fatlaða og framboð leiguíbúða hafi batnað mest frá árinu 2017 en staða atvinnumála og atvinnuöryggi hafi versnað mest á sama tíma. Íbúar töldu nú möguleika til framhaldsskólanáms mikilvægara málefni en áður en áhersla á almenningssamgöngur er ekki eins mikil og áður. Flestir þættir jukust þó að mikilvægi frá 2017.

Borgfirðingar telja heilsugæslu og skipulagsmál hafa versnað mest frá 2017 en að nettenging hafi batnað mest. Möguleika til háskóla- og framhaldsskólanáms telja þeir mikilvægari en áður en áhersla á atvinnuúrval og almenningssamgöngur dróst mest saman.

Í Dölum hefur nettenging batnað mest að gæðum frá 2017, að mati íbúa. Þeir töldu mannlíf hafa versnað. Áhersla þeirra á vöruverð jókst mest að mikilvægi frá fyrri könnun en áhersla á almenningssamgöngur minnkaði mest á tímabilinu.

Snæfellingar telja framboð leiguíbúða vera þann þátt sem hafi batnað mest frá 2017 en almenningssamgöngur og nettengingar hafi á sama tíma versnað mest. Mesta aukning mikilvægis var að þeirra mati á þjónustu við útlendinga en íbúar á Snæfellsnesi leggja nú minni áherslu á almenningssamgöngur og laun.

ÍBÚAR OG MIKILVÆGI BÚSETUSKILYRÐA Á VESTURLANDI – samantekt á niðurstöðum