Matsjáin 2022 – 82 umsóknir! 

SSVFréttir

Nú á dögunum lauk umsóknarfresti í Matsjána. Um er að ræða verkefni sem er ætlað smáframleiðendum matvæla sem vilja styrkja leiðtogahæfileika sína, öðlast færni til að þróa vörur, þjónustu og tengslanet sitt í greininni ásamt því að auka á þekkingu sína í kynningar- og markaðsmálum.

Matsjáin er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna og SSFM en allir þátttakendur í verkefninu eru félagsmenn í SSFM fyrir eða verða félagsmenn í gegnum námskeiðsgreiðslu. Verkefnið mun því styrkja tengslanet smáframleiðenda um allt land og þétta raðirnar innan hvers landshluta. Fjöldi umsókna af öllu landinu voru 82 og þar af 12 umsækjendur frá Vesturlandi. Áhuginn er skipuleggjendum mikið ánægjuefni enda er þetta í fyrsta sinn sem verkefnið fer af stað. Matsjáin er unnin að fyrirmynd Ratsjánnar sem haldin var í upphafi árs 2021 við frábærar undirtektir.

Matsjáin fer fram á 14 vikna tímabili og hefst 6. janúar næstkomandi. Verkefnið er unnið í 7 lotum þar sem fræðsluerindi, ráðgjöf, heimafundir, jafningaráðgjöf og verkefnavinna eru tvinnuð saman með skipulögðum hætti með það fyrir augum að allir geti mátað sig inn í umræðuefni hverrar lotu. Verkefninu lýkur með uppskeruhátíð þar sem allir þátttakendur hittast í raunheimum og gera sér glaðan dag saman.

Við hlökkum til að hefja nýtt ár með þessu kraftmikla verkefni hér á Vesturlandi og styrkja þannig stöðu smáframleiðenda matvæla í landshlutanum. Verkefnastjóri Matsjánnar á Vesturlandi er Thelma Harðardóttir og mun hún sjá um fundarstjórn ásamt því að bjóða ráðgjafatíma á sviði efnissköpunar og samfélagsmiðla.