Yfirferð umsókna í Uppbyggingarsjóð Vesturlands stendur yfir

SSVFréttir

Frestur til að sækja um styrki í Uppbyggingarsjóð Vesturlands í fyrri úthlutun árið 2022 rann út miðvikudaginn 17. nóvember síðastliðinn.
Þátttaka var svipuð og undanfarin ár og bárust alls 127 umsóknir í sjóðinn þar sem óskað var eftir 224,6 milljónum króna. Til úthlutunar eru 60 milljónir króna á árinu 2022 sem skiptist þannig að 29 mkr. er úthlutað í atvinnu- og nýsköpunarverkefni og 31 mkr. í menningarverkefni. Menningarhlutinn er með eina úthlutun á ári en atvinnu- og nýsköpunarhluti er með tvær úthlutunar á ári og mun því verða auglýst aftur eftir umsóknum síðar á árinu 2022 í þeim hluta sjóðsins.

  • Umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki stofnana á sviði menningarmála voru 14 og alls sótt um 30 milljónir króna
  • Umsóknir um verkefnastyrki á sviði menningar voru 84 og alls sótt um 103,9 milljónir króna
  • Umsóknir um verkefnastyrki á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar voru 29 og alls sótt um 90,7 milljón króna

Það er gaman að sjá að það er mikið af hugmyndaríku og öflugu fólki á svæðinu sem ætlar að sækja fram og vinna að góðum verkefnum á komandi ári.

Nú stendur yfir vinna við að fara yfir umsóknir hjá fagráði og úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs.
Svör um styrkveitingar munu berast til umsækjenda fyrir jól og í framhaldinu stefnt á úthlutunarhátíð í janúar á nýju ári.