Kellingar hylltar á Akranesi

SSVFréttir

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og Guðríður Sigurjónsdóttir formaður mennignar- og safnanefndar Arkaneskaupstaðar með Kellingunum leikhóp. Þær eru Guðbjörg Árnadóttir, Hallbera Jóhannesdóttir og Halldóra Jónsdóttir. Mynd fengin af vef Akraneskaupstaðar.

Sú hefð hefur skapast á Akranesi að heiðra ýmis konar samfélagsverkefni í tilefni af Rökkurdögum sem í ár eru haldnir í 20. skipti. Þar á meðal eru menningarverðlaun Akraneskaupsstaðar sem í ár féllu í skaut leikhópsins Kellinga.

Kellingarnar eru hópur kvenna á Akranesi sem undanfarin ár hafa staðið fyrir sögurölti um Akranes þar sem þær stíga á stokk og segja frá sögu staðarins með leikrænu ívafi. Hafa viðburðirnir verið vel sóttir en hópurinn leggur mikið uppúr heimildaöflun, handritaskrifum og lifandi flutningi við verk sín með góðum árangri. Dæmi um umfjöllunarefni Kellinganna er saga gömlu húsanna á Görðum, íþróttastarf Skagamanna, verslun og útgerð og svo má langi telja.

Kellingar hafa fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands undanfarin ár sem sendir þeim með stolti hamingjuóskir með menningarverðlaun Akraneskaupstaðar.

Kellingar stunda íþróttir. Viðburður frá árinu 2021