„Hulið“ frumsýnt í Tjarnarbíói

SSVFréttir

Borgnesingurinn Sigríður Ásta Olgeirsdóttir frumsýnir verk sitt Hulið í Tjarnarbíói 2. júní næstkomandi. Verkið er óður til jarðarinnar unnin út frá reynslu höfundar af óútskýranlegum uppákomum. Það beinir sjónum sínum að formæðrum okkar sem sáu lengra en nef þeirra náði. Sögusviðið er órætt en þó munu glöggir Borgnesingar kannast við ýmsar aðstæður og persónur í sögunni.

Verkið er í leikstjórn Halldóru Rósu Björnsdóttur og tónlistin í verkinu er eftir Önnu Þorvaldsdóttur tónskáld sem hefur heldur betur getið af sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi.

Þó svo að Sigríður Ásta sé ung sviðslistakona hefur hún komið víða við í listsköpun sinni. Hún skapaði helminginn af leiklistardúettinum Það og Hvað sem hafa skemmt börnum á Vesturlandi og víðar, hún tók þátt í uppsetningu verksins Ég er steinn í Frystiklefanum í Rifi, komið fram í Tónleikaröð í Hallgrímskirkju í Saurbæ og lék í verkinu Heimkoma á vegum Handbendi brúðuleikhúss á Hvammstanga sem hlaut Eyrarrósina árið 2021. Sigríður Ásta hefur undanfarið verið að móta eigin leikverk og einleiki og er Hulið liður í þeirri vegferð.

Hulið fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands, og er Sigríði sendar hamingjuóskir með áfangann með tilhlökkun um komandi listaverk.

Miðasala fyrir Hulið er hafin og er hægt að nálgast miða á tix.is

 

.