Heima Skagi fer fram um helgina

SSVFréttir

Annað kvöld, 28. október verður blásið til tónlistarhátíðar á Akranesi, en þá fer Heima – Skagi 2023 fram í bænum. Hátíðin fer þannig fram að fremur óhefðbundin tónlistarrými eru notuð til tónleikahalds, og til að mynda opna Skagamenn heimili sín fyrir tónlistarþyrstum gestum. Auk heimahúsa fara fram tónleikar í Rakarastofu Hinriks, Blikksmiðju Guðmundar, Skemmunni hjá Ísólfi (bakhús hjá Bárunni) og fleiri stöðum. Gestir geta því gengið á milli staða og notið tónlistar  fremstu tónlistarmanna þjóðarinnar. Til dæmis má nefna Diddú, Árstíðir, Mugison, Langa Sela og Skuggana, Kolrössu Krókríðandi og Bogomil Font og Milljónamæringanna. Það er því ljóst að um algjöra menningarveislu er  að ræða.

Skagamaðurinn og útvarpsmaðurinn knái Ólafur Páll Gunnarsson er aðalskipuleggjandi Heima-Skagans 2023 eins og undanfarin ár.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands í ár og óskar starfsfólk SSV skipuleggjendum til hamingju með hátíðina.

Þegar þetta er ritað eru örfáir miðar lausir og nánari upplýsingar má nálgast á Facebook síðu hátíðarinnar og miðasala fer fram á tix.is og í verslun Eymundsson á Akranesi.

Hér fyrir neðan má sjá kort með staðsetningu tónleikanna.