Vel heppnuð ráðstefna um sveitarfélög á krossgötum

SSVFréttir

SSV stóð fyrir ráðstefnu í Breið þróunarsetri á Akranesi í gær.  Yfirskrift ráðstefnunnar var sveitarfélög á krossgötum þar sem annars vegar var rætt um sameiningar sveitarfélaga og hins vegar hvernig sveitarfélög geta aukið aðdráttarafl sitt til þess að laða til sín íbúa og atvinnustarfsemi.  Ráðstefna var vel sótt en um 50 manns mættu og tóku þátt undir öruggri stjórn Guðveigar Eyglóardóttir, formanns SSV og ráðstefnustjóra.

Fyrir hádegi var rætt um sameiningar sveitarfélag og opnaði Hermann Sæmundsson ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu dagskrána.  Hann rakti í stuttu máli hvernig umræðan um sameiningu sveitarfélaga hefur þróast og hvað hefur áunnist.  Flest voru sveitarfélögin árið 1950 eða 229.  Fyrir 30 árum síðan má segja að hafist hafi markviss vinna í að fækka sveitarfélögum, en þá voru þau 196.  Í dag eru þau 64 og hefur því fækkað um 132 á þessum 30 árum.  Hermann fór síðan yfir helstu áherslur innviðaráðuneytisins í sameiningarmálum og markmiðið væri að skapa sjálfbær sveitarfélög.  Því næst stigu þau Róbert Ragnarsson og Freyja Sigurgeirsdóttir ráðgjafar hjá KPMG á stokk, en þau hafa mikla reynsla af því að vinna að sameiningu sveitarfélaga.  Í erindinu lögð þau megin áherslu á tvennt, annars vegar hvað þurfi til að sveitarfélög verði sjálfbær og hins vegar hvernig sameiningarferlið gengur fyrir sig.  Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri í Húnaþingi vestra lýsti aðdraganda sameiningar, sameiningarferlinu og hvað hefur áunnist í Húnaþingi.  Hún fór yfir lykilþætti þess að í sveitarfélaginu hefur verið góð sátt um sameininguna og þar dró hún fram þann áhugaverða þátt að það voru börnin og ungmennin sem áttu stóra þátt í því að sveitarfélagið varð ein heild.  Björn Ingimarsson í Múlaþingi lýsti sameiningunni fyrir austan og kom sérstaklega inn á skipulag stjórnsýslunnar í dag og hvernig heimastjórnirnar eru að virka.  Þær eru fjórar og markmið þeirra er að tryggja áhrif og aðkomu heimamanna á hverjum stað að ákvörðunum sem varða þeirra nærumhverfi.  Vífill Karlsson ráðgjafi hjá SSV og prófessor við Háskólann á Bifröst sló svo botninn í umræðuna um sameiningarmálin, en hann gerði grein fyrir nýlegum rannsóknum sem hann lagðist í greiningu á stærðarhagkvæmni í rekstri sveitarfélaga, leitaði vísbendinga fyrir því hvort þjónusta í fámennum dreifbýlum sveitarfélögum breytist þegar þau verða hluti af stærra sveitarfélagi og síðast en ekki síst hvort munur sé á þjónustu fjölmennra sveitarfélaga og þeirra sem eru enn fjölmennari.

Eftir hádegishlé hófst umræða um aðdráttarafl sveitarfélaga og hvernig megi auka það, en aðdráttarafl er skilgreint sem staðbundnir þættir sem gera svæði að eftirsóttum búsetuvalkostum.   Heiða B. Hilmarsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga opnaði umræðuna og ræddi ýmsa þætti sem geta stuðlað að auknu aðdráttarafli og hvernig hægt er að vinna með þá.  Ágúst Bogason sérfræðingur hjá Norrænu byggðastofnuninni Nordregio gerði stuttlega grein fyrir skýrslu sem unnin var á þeirra vegum um aðdráttarafl smærri norrænna sveitarfélaga og tengdi það við rannsókn sem hann er að vinna að um óstaðbundin störf.  Hann sagði ljóst að ýmsir aðrir þættir en atvinna ættu sífellt stærri þátt í búsetuvali fólks.  Bjarki Grönfeldt lektor við Háskólann á Bifröst fór yfir nýlega skýrslu sem hann hefur tekið saman um aðdráttarafl sveitarfélaga á Íslandi, auk þess að fara yfir áhugaverðar rannsóknir sem hann og Vífill Karlsson hafa unnið um byggðabrag, hugarfar og huglæga þætti sem geta haft áhrif á byggðaþróun.  Síðust á mælendaskrá var Helena Guttormsdóttir lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, en hún sagði frá norrænu verkefni sem hún tók þátt í f.h. Akraneskaupstaðar um samkeppnishæfni norrænna bæja.  Heiti verkefnisins var „Aðlaðandi bæir, umhverfisvæn endurnýjun og samkeppnishæfni í norrænum þéttbýlum“.  Í erindinu fór Helena yfir helstu þætti verkefnisins, mikilvægi norrænar samvinnu og hvernig má nýta sér hana til þess að auka þekkingu.

Ráðstefnan var tekin upp og verður upptakan aðgengileg á heimasíðu SSV innan skamms.