Ferðakaupstefnan Mannamót Markaðsstofa landshlutanna

SSVFréttir

Ferðakaupstefnan Mannamót Markaðsstofa landshlutanna snýr aftur í janúar. Viðburðurinn hefur skipað sér sess sem einn sá allra mikilvægasti í íslenskri ferðaþjónustu. Þar gefst samstarfsfyrirtækjum markaðsstofanna í öllum landshlutum tækifæri til að kynna sig fyrir fólki í ferðaþjónustu sem starfar á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel koma á nýjum viðskiptasamböndum.

Árið 2021 var Mannamóti frestað vegna heimsfaraldurs Covid-19, eins og svo mörgum öðrum stærri viðburðum. Nú þegar ferðaþjónustan er aftur að komast á skrið er tilhlökkunin eftir því að hittast í Kórnum í Kópavogi í janúar orðin mikil og nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki og gestir skráð sig til þátttöku.

Fyrirtæki frá Vesturlandi hafa ávallt fjölmennt á Mannamót og kynnt það besta sem er í boði í ferðaþjónustu á svæðinu. Undanfarin ár hafa færri sýnendur komist að en vilja og því mikilvægt fyrir samstarfsfyrirtæki að ganga frá sinni skráningu sem fyrst.

Sem fyrr segir verður sýningin haldin í Kórnum í Kópavogi, fimmtudaginn 20. janúar á milli 12 og 17. Enginn aðgangseyrir er fyrir gesti sem mæta á viðburðinn, en þeim er þó bent á að skrá sig áður en þeir mæta svo auðveldara sé að áætla fjölda gesta.
Hægt er að skrá sig á www.markadsstofur.is

Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri Markaðsstofu Vesturlands, Björk Júlíana Jóelsdóttir, bjork@west.is