Fimmtudaginn 16. maí var blásið til Farsældardags Vesturlands í Hjálmakletti í Borgarnesi. Markmið með viðburðinum var að framlínufólk farsældarmála á Vesturlandi kæmi saman, bæri saman bækur sínar og mótuðu innleiðingu farsældarlaganna í landshlutanum. Um 120 manns komu saman í Hjálmakletti og hlýddu á „fyrirmyndarsögur“ frá sveitarfélögnum, þ.e. hvað hefur tekist vel og hvernig mætti læra enn meira af reynslunni.
Í tilefni af farsældardeginum hélt Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra ávarp og notaði tækifærið til að undirrita samning við Pál S. Brynjarsson framkvæmdastjóra SSV um nýtt stöðugildi farsældarfulltrúa hjá samtökunum. Er Vesturland fyrsti landshlutinn sem undirritar slíkan samning og er stefnt að ráðningu starfsmannsins með hausti, en nú tekur við vinna að móta starfslýsingu starfsins.
Í lok farsældardagsins kynntu Jónas Ottóson og Jón Arnar Sigurþórsson lögreglufulltrúar hjá Lögreglustjóranum á Vesturlandi verkefnið „Öruggara Vesturland“ og var í kjölfarið undirrituð samráðsyfirlýsing rúmlega tuttugu aðila um aðgerðir gegn heimilisofbeldi á Vesturlandi. Auk lögreglustjórans og ríkislögreglustjóra skrifuðu Sýslumaðurinn á Vesturlandi, öll sveitarfélögin í landshlutanum, HVE, mennta- og fjölbrautaskólar á Vesturlandi, Vesturlandsprófastsdæmi, íþróttasamböndin og SSV undir samstarfsyfirlýsinguna.
Farsældardagurinn er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands um velferð í landshlutanum en starfshópur fyrir verkefninu var skipaður í lok árs 2023. Sólveig Sigurðardóttir farsældarfulltrúi Akraneskaupstaðar, Hlöðver I. Gunnarsson sviðstjóri fjölskyldu- og frístundasviðs Borgarbyggðar og Erla Björg Kristjánsdóttir félagsmálastjóri Borgarbyggðar önnuðust faglegt skipulag farsældardagsins og leitað var liðsinnis KPMG um framkvæmd og utanumhald dagsins. Verkefnastjóri hjá SSV voru Páll S. Brynjarsson framkvæmdarstjóri og Sigursteinn Sigurðsson menningar- velferðarfulltrúi.
Farsældardagurinn tókst framar vonum og færir SSV öllum þeim sem lögðu hönd á plóg þakklæti fyrir.