Barnamenningarhátíð hefst í dag

SSVFréttir

Akraneskaupstaður setti Barnamenningarhátíð formlega í dag. Að því tilefni var öllum mennta- og menningarstofnunum í bænum afhent nýútkomna bók á vegum Listasafns Íslands Sjónarafl: Þjálfun í myndlæsi. Bókin er einstaklega gagnleg í að kenna börnum (og fullorðnum) á öllum aldri hvernig á að lesa listaverk.

Dagskrá Barnamenningarhátíðar Akraneskaupstaðar er fjölbreytt í ár og stefndur hún dagana 23.31. maí. Þema hátíðarinnar er skrímsli, og munu alls konar forynjur setja svip sinn á bæinn þessa daga, t.d. hafa sjóskrímsli látið á sér kræla í fjörunum í kringum bæinn, en ekkert er að óttast því þarna eru skúlptúrar sem nemar í skólum bæjarins hafa verið að móta að undanförnu.

Fjölmargar smiðjur í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki eru á dagskrá, flugdrekakeppni á Akratorgi, skrímslaganga og margt fleira.

Barnamenningarhátíð er áhersluverkefni Sóknaráætlunnar Vesturlands og hefur hátíðin farið á milli þriggja sveitarfélaga undanfarin ár. Akraneskaupstaður tekur við keflinu af Borgarbyggð í ár og er Vera Líndal Guðnadóttir verkefnastjóri menningar- og safnamála hjá Akraneskaupstað hátíðarstjóri.

Nánar um hátíðina og dagskrá má nálgast á skagalif.is.