Fjölmennur fundur um vegamál á Vesturlandi

SSVFréttir

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) stóðu fyrir fjölmennum fundi um vegamál á Vesturlandi í Gestastofu Snæfellinga á Breiðabliki föstudaginn 10 maí s.l.  Gestir fundarins voru þingmenn Norðvestur-kjördæmis, ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins og forstjóri Vegagerðarinnar ásamt starfsmönnum.  Kjörnir fulltrúar og bæjar- og sveitarstjórar á Vesturlandi fjölmenntu á fundinn sem sýnir mikilvægi vegamála fyrir sveitarfélögin á Vesturlandi.

Á fundinum kom skýrt fram sú mikla óánægja sem er ríkjandi meðal sveitarstjórnafulltrúa á Vesturlandi með fjárveitingar til viðhalds og nýframkvæmda í landshlutanum.  Tillaga að samgönguáætlun gerir ráð fyrir því að aðeins verði varið 700 m.kr. til nýframkvæmda við stofnvegi á Vesturlandi eða 1,6% af þeim fjármunum sem eiga að fara til framkvæmda við stofnvegi á næstu fimm árum.  Á fundinum kom fram að kjörnir fulltrúar á Vesturlandi sætta sig ekki við þessa stöðu.  Á sama tíma er ljóst að hluti vegakerfisins á Vesturlandi er svo illa farinn að Vegagerðin hefur haft til skoðunar að lækka hámarkshraða á Snæfellsnesvegi og á Vestfjarðarvegi í Dalabyggð hefur þurft að fræsa slitlag af veginum.

Fram kom í máli forstjóra Vegagerðarinnar að varið verði mestu fjármagni til viðhalds vega á Vesturlandi og Suðurlandi á þessu ári, en vegir í þessum landshlutum eru hvað verst farnir enda er vegakerfið elst þar.  Tillaga að nýrri samgönguáætlun er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd alþingis þessa dagana.  Sveitarstjórnarfulltrúar á Vesturlandi treysta því að annað hvort verði auknu fjármagni veitt til samgöngumála og þar með framkvæmda á Vesturlandi eða gerðar verði breytingar á áætluninni sem leiðrétti þessar lágu fjárveitingar til Vesturlands.  Þá er líka afar brýnt að stór viðhaldsverkefni líkt og framundan eru á Snæfellsnesvegi og Vestfjarðarvegi í Dalabyggð verði skilgreind sem ný framkvæmdir og fái sérstakar fjárveitingar, en falli ekki undir hefðbundið viðhald þar sem þessir vegir eru væntanleg afskrifaðir í eignasafni ríkisins.

Góðar samgöngur eru lykilatriði í nútímasamfélagi.  Það má ekki gerast að Vesturland sitji eftir þegar kemur að viðhaldi og ný framkvæmdum við vegi í landshlutanum