Endurskoðun á Menningarstefnu Vesturlands í fullum gangi

SSVFréttir

Í lok síðustu viku fór fram fimmta og síðasta pallborðstreymi þar sem kaflar Menningarstefnu Vesturlands voru teknar til umfjöllunar. Á öll fimm pallborðin var fólki boðin þátttaka sem hafa reynslu og þekkingu á málefnunum sem tekin voru til umfjöllunar hverju sinni. Áhorfendum gafst tækifæri á að senda inn ábendingar, hugmyndir og hugleiðingar í gegnum Facebook síðu SSV og í gegnum sérstakt skoðunarkönnunarforrit. Þykir hafa tekist vel til og fjölbreytt gögn orðið til sem munu nýtast í vinnunni sem framundan er við endurskoðunina.

Fagráð menningarstefnunnar mun taka gögnin til umfjöllunar og útkoman úr þeirri vinnu verður endurskoðuð Menningarstefna Vesturlands og mun hún gilda 2021-2025. Fagráðið er skipað fulltrúum frá öllum sveitarfélögum á Vesturlandi, auk fjögurra aðila sem hafa menningartengdar atvinnugreinar sem aðalstarf. Auk þeirra eru starfsmenn fagráðsins Sigursteinn Sigurðsson menningarfulltrúi SSV og Sólveig Ólafsdóttir starfsmaður menningarstefnunnar.

Framundan er vinna er varðar úrvinnslu þeirra gagna sem urðu til á pallborðunum, en bent er á að enn er hægt að senda inn ábendingar, hugmyndir eða hugleiðingar á sigursteinn@ssv.is Hægt er að horfa á öll pallborðin á Youtuberás SSV eða á Facebooksíðu samtakanna.

Sigursteinn menningarfulltrúi stýrði pallborðunum en glöggir kunna að taka eftir mismunandi listaverkum í bakgrunn pallborðsumræðanna. Þetta eru verk sem finnast á skrifstofu SSV í Borgarnesi og til gamans notum við því tækifærið að kynna verkin á meðfylgandi myndum.

Pallborð um menningaruppeldi: Hrútar, hannað og framleitt af Hekla Ísland Pallborð um listir: Málverk af Borgarfirði eftir Einar Ingimundarson Pallborð um nýsköpun: Skessuhorn, blýantsteikning eftir Tolla. Verk í eigu Safnahúss Borgarfjarðar Pallborð um menningaruppeldi: Sjómaðurinn, gips afsteypa af höggmynd Marteins Guðmundssonar sem stendur á Akratorgi á Akranesi Pallborð um samvinnu: Ónefnd ljósmynd af Kirkjufelli eftir Ara Sigvaldason