Bifröst býður upp á BA nám i skapandi greinum næsta haust

SSVFréttir

Mikil gróska er í skapandi námi í Háskólanum á Bifröst. Um áraraðir hefur verið boðið uppá MA og MCM nám í menningarstjórnun. Síðastliðið haust var hleypt af stokkunum nýju diplóma námi í skapandi greinum og næsta haust verður boðið uppá BA nám á þeirri braut. Námsbrautin er sniðin fyrir þá sem vilja öðlast innsýn og skilning á starfi framleiðenda, verkefnastjóra, umboðsmanna, útgefenda, sýningastjóra, listrænna stjórnenda, framkvæmdastjóra, frumkvöðla og „brautryðjenda“ í hinum margvíslegu menningar- og hugverkagreinum sem sameinast undir skilgreiningunni skapandi greinar.

Að því tilefni hefur Anna Hildur Hildibrandsdóttir verið ráðinn sem fagstjóri skapandi greina við skólann en Anna Hildur er kvikmyndagerðarkona sem starfaði um 20 ára skeið í tónlistargeiranum. Hún leiddi uppbyggingu Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og NOMEX sem er norrænt samstarfsverkefni um tónlistarútflutning. Hún leiddi einnig vinnuna við kortlagningu og skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina sem kom út árið 2011. Það er því ljóst að öflugur einstaklingur er komin til liðs við háskólann.

Einnig er unnið að því um þessar mundir að stofna Rannsóknarsetur skapandi greina við háksólann og er SSV samstarfsaðili í þeirri vinnu. Við óskum Háskólanum á Bifröst til hamingju með þessi tímamót og sömuleiðis Önnu Hildi með starfið.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir, nýráðin fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst