Lýðheilsuvísar Vesturlands 2022

SSVFréttir

Lýðheilsuvísar Vesturlands 2022 gefnir út

Á dögunum gaf embætti Landlæknis út Lýðheilsuvísa fyrir heilbrigðisumdæmi landsins. Lýðheilsuvísar eru mælikvarðar sem gefa til kynna stöðu heilbrigðis og vellíðan þjóðarinnar eftir svæðum. Við ákvörðun um val á vísunum er sjónum beint að ýmsum stefnum sem stofnanir á borð við Landlæknisembættið, Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) og Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út er ákvarða markmið um almenna lýðheilsu í heiminum. Þannig tvinnast lýðheilsuvísar heilbrigðisumdæmanna við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Að sama skapi gefa Lýðheilsuvísarnir vísbendingu um í hvaða átt skal stefna á hinum ýmsu málaflokkum velferðar í stjórnsýslu landshlutanna. Þegar horft er til Vesturlandsumdæmis eru vísar almennt á pari við landsmeðaltal, en þó eru frávik sem standa út í Vesturlandsumdæmi. Það sem er helst til jákvætt er að fleiri framhaldsskólanemar meta andlega heilsu góða, gosdrykkjaneysla fullorðinna er minni og íbúar 60 ára og eldri eru duglegri að mæta í inflúensubólusetningu en landsmeðaltalið segir. Það vekur þá athygli að einmannaleiki fullorðinna er minni í umdæminu og áhættudrykkja fullorðinna er sömuleiðs minni en almennt gengur og gerist.

Færri börn í 1. bekk grunnskóla nota virkan ferðamáta, þ.e. ganga eða hjóla í skóla og tómstundir, eða tæp 35% á meðan landsmeðaltalið er 45,5%. Þáttaka barna í 8.-10. bekk í skipulögðu íþróttastarfi er minni í umdæminu, eða um 5% minni en landsmeðaltalið. Það kemur þá fram í lýðheilsuvísi Vesturlandsumdæmis að þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini er minni í umdæminu en annarsstaðar, sem gefur til kynna að átaks sé þörf í þeim efnum. Á móti kemur að þátttaka í skimun fyrir brjóstakrabbameini er almennt meiri í umdæminu en landsmeðaltalið segir.

Mikilvægt er að hafa í huga þegar rýnt er í lýðheilsuvísirinn fyrir Vesturland 2022 að heilbrigðisumdæmið er víðara en stjórnsýslulegur landshluti Vesturlands. Þannig eru Reykhólahreppur, Strandabyggð, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur á Vestfjörðum og Húnaþing Vestra á Norðurlandi vestra hluti af umdæminu. Á Vesturlandi er í gildi Velferðarstefna Vesturlands sem kom formlega út árið 2020 en það eru sett fram markmið og aðgerðir um bætta lýðheilsu í landshlutanum. Markmiðin ganga útá m.a. að efla foreldrafræðslu, auka þátttöku ungmenna í tómstundum og skipulögðu íþróttastarfi, aukinni velferð aldraðra og fyrst og fremst að heilsa og vellíðan íbúa á Vesturlandi verð höfð að leiðarljósi í starfi sveitarfélaga og ríkisstofnanna á svæðinu. Áhugavert er að bera saman Velferðarstefnu Vesturlands og niðurstöður Lýðheilsuvísisins og skapa þannig vettvang til að efla lýðheilsu á Vesturlandi.

Lýðheilsuvísar 2022

Velferðarstefna Vesturlands