Horfur á Vesturlandi

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Minnisblað um ástand og horfur á Vesturlandi í ljósi breyttra aðstæðna í efnahagsmálum

Atvinnuráðgjöf Vesturlands var beðin um að legðja mat á stöðuna á svæðinu í kjölfar breyttra efnahagsaðstæðna. Rætt var við alla framkvæmdastjóra sveitarfélaga á svæðinu og fóru þeir yfir staðreyndir á sínu svæði. Ennfremur var rætt við stjórnendur nokkurra fyrirtækja.

Inngangur

Almennt má segja að svör viðmælanda hafi markast mjög af óöryggi og óvissu um ástandið. Erlend viðskipti í uppnámi, bankaviðskipti í óvissu og óljósar upplýsingar og „væntingar“ um framtíðina. Langverst virðist óvissan um erlend viðskipti hafa á flesta, sérstaklega á svæðum þar sem útflutningsatvinnuvegir eru ráðandi, en það er bæði á Snæfellsnesi og á Grundartangasvæðinu. Ekki er einungis um að ræða óöryggi varðandi útflutning og tekjur af afurðum, heldur ekki síður vegna aðfanga, viðskiptasambanda og það að traust sé brostið.

Ennfremur kom mjög skýrt fram að menn töldu mjög mikilvægt að vextir lækkuðu fljótt og mikið. Þróun gengisvísitölu var nefnd sem mikilvægt atriði og þróun í byggingariðnaði og framkvæmdum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Staða sauðfjárbænda og myntkörfulán mjólkurframleiðanda voru ennfremur nefnd. Áhyggjum var einnig lýst af atvinnustigi og stöðu heimilanna.

Hvalfjarðarsveit

Stóriðjufyrirtækin fá ekki gjaldeyri, ekki búið að greina stöðuna. Fyrirhuguð uppbygging á Grundartanga í vissu uppnámi.

Fasteignagjöld óvenju hátt hlutfall tekna þannig að skerðing á tekjum sveitarfélagsins er að nokkru leyti í öðrum takti en almennt annarsstaðar.

Bændur með gengistryggð lán fyrir nýframkvæmdum. Fjöldi fólks á svæðinu með lífeyrissparnað sinn í peningamarkaðssjóðum skv. ráðgjöf bankanna.

Ekki hefur verið tekin afstaða til frestunar framkvæmda hjá sveitarfélaginu.

Akranes

Hratt hefur dregið úr verkefnum byggingariðnaðarins, verkefnaskortur framundan. Hinsvegar er skortur á iðnaðarmönnum hjá stóriðjunni, framleiðslan hefur verið aukin.

Metur fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins góða m.v. aðra. Lífeyrissjóðurinn varð fyrir áfalli, en það verður hægt að vinna upp á lengri tíma.

Borið hefur á því að fólk sem hefur ætlað að byggja getur ekki selt og er að komast í vandræði. Fjöldi einstaklinga hefur fjárfest í peningamarkaðsbréfum og tapað á því.

Ekki neinar aðgerðir boðaðar vegna stöðunnar aðrar en að upplýsa stjórnendur stofnana og fyrirtækja.

Byggingu sundlaugar hefur verið frestað, staðan metin þegar mál skýrast.

Borgarbyggð

Verktakar og framleiðslufyrirtæki í byggingariðnaði eru stórir liðir í Borgarbyggð. Farið er að bera á samdrætti hjá verktökum og framleiðslufyrirtækjunum. Bændur í héraðinu væntanlega í sama vanda og annars staðar.

Rekstur í jafnvægi, fjármagnskostnaður hefur hækkað mikið frá fyrra ári og SPM hefur sett sveitarfélagið í erfiða stöðu.

Ekki er farið að bera á auknum beiðnum um fjárhagsaðstoð hjá einstaklingum

Beðið er eftir afgreiðslu frá lánasjóði sveitarfélaga. Gangi það eftir verður framkvæmdaáætlun yfirstandandi árs óbreytt. Fyrirséð er að framkvæmdir verða minni á næsta ári ef fram fer sem horfir.

Nauðsynlegt að sveitarfélaginu verði tryggt aðgengi að lánsfjármagni til að halda eðlilegum rekstri og halda uppi grunnþjónustu.

Snæfellsbær

Erfið staða hjá smáum og stórum útgerðarfyrirtækjum, sérstaklega þeim sem skulda í erlendri mynt. Fyrirséð að smá og stór fyrirtæki lenda í vandræðum á næstunni.

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er viðunandi m.v. aðstæður. Erlendar skuldir ekki miklar.

Engar sérstakar ráðstafanir vegna ástandsins.

Sveitarfélagið mun ekki þurfa að endurskoða framkvæmdaáætlun sína.

Ekki talið að fólk sé í miklum skuldbindingum í erlendri mynt vegna t.d. húsnæðis.

Grundarfjörður

Staða fyrirtækja misjöfn. Allt er í biðstöðu á meðan gjaldeyrisviðskipti liggja niðri. Fiskútflutningsfyrirtækin reyna að halda sjó.

Sveitarfélagið leggur áherslu á að halda úti grunnþjónustu og daglegum rekstri. Stærri verkefni hafa verið sett í bið, þar til mál skýrast.

Sveitarfélagið mun meta hvort endurskoða þurfi framkvæmdaáætlun þegar mál skýrast.

Nauðsynlegt að komið veri upp bankakerfi á næstu vikum sem þjónað getur fyrirtækjum og sveitarfélögum.

Ekki talið að fólk sé í miklum skuldbindingu í erlendri mynt vegna íbúðarhúsa. Vitað er um slík bílalán, en það er bara eins og annars staðar.

Stykkishólmur

Ekki vitað um erfiða stöðu fyrirtækja.

Sveitarfélagið ekki með neinar erlendar skuldir, staða þess viðunandi. Fjármögnun fyrir yfirstandandi ár liggur fyrir.

Ekki neinar stórframkvæmdir í gangi. Haldið verður áfram með þau verkefni bæði framkvæmdir og viðhaldsverkefni, sem voru í gangi og þeim lokið. Beðið verður með ákvarðanir um stór verkefni þar til staðan skýrist.

Dalabyggð

Staða bænda mikið áhyggjuefni, sérstaklega sauðfjárbænda vegna afurðaverðs og hækkunar tilkostnaðar og sama gildir um mjólkurframleiðendur sem skuldsettir eru í erlendri mynt.

Staða fyrirtækja er óbreytt, þó er ákveðin óvissa með hvaða stefna verður tekin hjá mjólkurstöðinni sem er burðarás atvinnulífsins í framhaldi af boðuðum hagræðingaraðgerðum.

Staða sveitarfélagsins viðunandi. Fjárhagsáætlun í endurskoðun. Verið er að skoða ýmsar framkvæmdir en ákvarðanir ekki verið teknar. Mikil vöntun á íbúðarhúsnæði.


Niðurstaða og samantekt

Þessi stutta samantekt byggir á samtölum við framkvæmdastjóra sveitarfélaga á svæðinu og endurspeglar fyrst og fremst óvissu um stöðuna og framhaldið. Allir lögðu áherslu á að jákvæð skilaboð yrðu send út í samfélögin.

Ef litið er til verkefna sem mikilvægt er að líta til í framhaldinu, fyrir utan það sem nefnt var í inngangi, og haft hafa gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið allt má nefna:

· Endurnýjun menningarsamnings

· Endurnýjun og eflingu vaxtarsamnings

· Að haldið verði áfram að styðja við starfsemi þeirra fjölmörgu setra og safna sem byggst hafa upp á svæðinu á undanförnum árum

· Að Símenntunarmiðstöð Vesturlands verði efld

· Að stutt verði vel við starfsemi framhaldsskólanna og háskólanna á svæðinu

· Lánasvið Byggðastofnunar verði styrkt verulega til að taka við verkefnum sem það augljóslega stendur frammi fyrir

Allt eru þetta verkefni sem gagnast heildinni og geta verið leiðarvísir svæðisins inn í nýja tíma.

Staða fyrirtækja á svæðinu er einnig óljós, vitað er um fyrirtæki á öllu svæðinu sem eru í miklum erfiðleikum, erfiðleikar sem voru komnir upp áður en fjármálkerfið fór í uppnám og eru þar fyrst og fremst um fyrirtæki í byggingariðnaði og tengdri starfsemi að ræða. Gagnvart þeim fyrirtækjum virðast fjármálafyrirtæki hafa slakað á sókn gegn þeim þegar þau stoppuðu, en ljóst er að það er tímabundið.

Vitað er um smá og stór útgerðarfyrirtæki á Snæfellsnesi og það jafnvel rótgróin fyrirtæki sem geta verið í uppnámi vegna aðstæðna sem skapast hafa á fjármálamarkaði. Mikilvægt er að fylgst verði vel með þeim málum og staðið vörð um fiskveiðiheimildir þeirra.

Mikil aukning hefur orðið á verkefnum Atvinnuráðgjafar síðustu vikur. Búast má við áframhaldandi aukningu, sérstaklega í beinni ráðgjöf við fyrirtæki.

Atvinnuráðgjöf Vesturlands – Ólafur Sveinsson – Vífill Karlsson

14. Október 2008