Róið á Evrópsku miðin.

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

– 30 íslenskir sveitarstjórnarmenn sóttu opna daga Héraðanefndar Evrópu í Brussel og fundu þar sóknarfæri og sambönd


Í liðinni viku sótti hópur íslenskra sveitarstjórnarmanna ráðstefnu í Brussel á vegum Héraðanefndar Evrópusambandsins. Er þetta í fyrsta sinn sem íslensk sveitarfélög taka beinan þátt í samstarfi sveitarfélaga ESB með þessum hætti. Sveitarfélög á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra voru í fararbroddi en þau voru með bás á sérstökum vettvangi fyrir fjárfesta og kynntu það sem þessir landshluta hafa upp á að bjóða á sviði fjárfestinga, ferðaþjónustu og atvinnusköpunar.

Í hópnum voru um 30 sveitarstjórnarmenn af landsbyggðinni undir forystu Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra á Ísafirði og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það var skrifstofa sambandsins í Brussel og starfsmaður hennar, Anna Margrét Guðjónsdóttir, sem bar hitann og þungann af skipulagi ferðarinnar en auk þess að sækja hina opnu daga eins og ráðstefnan var kölluð heimsótti hópurinn sendiráð Íslands og Eftirlitsstofnun EFTA þar sem starfsemi EFTA, ESB og fleiri stofnana var kynnt.

Norðurslóðir á dagskrá

Þátttakendum gafst kostur á að sækja fjölmörg málþing sem í boði voru og notfærðu menn sér það óspart. Þar var fjallað um allt mögulegt sem snertir starfsemi sveitarfélaga og töldu menn sig hafa töluvert gagn af því að sækja málþingin. Eitt þeirra fjallaði um möguleika norðurhjara Evrópu og þar var meðal frummælenda Vífill Karlsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi en erindi hans fjallaði um möguleika í ferðaþjónustu á norðurslóðum sem í þessu tilviki ná yfir svæðið frá Grænlandi í vestri til Finnlands í austri og suður til Skotlands. Aðrir fyrirlesarar fjölluðu um olíuvinnslu, skógrækt, námugröft, fiskeldi og aðra atvinnustarfsemi á norðurslóðum.

Meginspurningin sem varpað var fram á málþinginu var sú hvort norðurhjarinn bætti einhverju við auðlegð Evrópu, hvort þar væri eftir einhverju að slægjast fyrir aðra íbúa álfunnar. Niðurstaða fundarstjórans, Graham Meadows, fyrrum framkvæmdastjóra byggðamála hjá ESB, að erindum loknum var sú að svarið væri afdráttarlaust já. Hins vegar væru þar sýnileg ýmis hættumerki í byggðaþróun sem Evrópuríkin þyrftu að fylgjast með og átta sig á því að allt benti til þess að þau væru ekki bundin við fámennar og afskekktar byggðir norðurslóða.

Sambandið við ESB treyst

Svo var á þátttakendum að heyra að þessi ráðstefna væri þeim gagnleg uppspretta. Gagnið felst í því að þar er stefnt saman sveitarstjórnarmönnum úr allri álfunni, allt frá Finnlandi til Portúgals og Íslandi til Tyrklands, og fjárfestum sem áhuga hafa á að hasla sér völl þar sem tækifærin eru. Þarna komast menn í samband við fólk sem er að fást við svipaða hluti en við mjög fjölbreyttar aðstæður. Sumir hittu fyrir fjárfesta sem sýndu áhuga á að taka þátt í verkefnum á Íslandi. Svo er bara að sjá hvort eitthvað verður úr þeim samböndum, en þau eru komin á.

Kynningin á stofnunum ESB og EFTA þótti mönnum ekki síður gagnleg í ljósi þeirrar umræðu sem á sér stað um hugsanlega aðildarumsókn Íslands að fyrrnefndu samtökunum. Reyndar á sér stað ákveðin nálgun sveitarfélaganna gagnvart ESB um þessar mundir og hún kom við sögu í ferðinni.

Þannig er að þótt EES-samningurinn tryggi ákveðna samsvörun EFTA- og ESB-stofnana er hlutur sveitarfélaganna þar æði rýr. Þau hafa ekki beinan aðgang að Héraðanefndinni af þeirri ástæðu að sú nefnd var ekki stofnuð fyrr en eftir að EES-samningurinn var undirritaður. Þá hafa sveitarfélögin heldur ekki aðgang að byggðasjóðum ESB sem styrkja fjölmörg verkefni sveitarfélaga í Evrópu. Fyrir vikið þurfa íslensk sveitarfélög að standa undir ýmsum verkefnum sem EES-samningurinn kveður á um án þess að njóta til þess sama stuðnings og evrópsk sveitarfélög.

Nú er hins vegar í bígerð að stofna sveitarstjórnarvettvang EFTA-ríkjanna sem gæti starfað sem mótvægi við Héraðanefnd ESB. Forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga sátu í ferðinni fundi með forystumönnum EFTA og ESB um þessi mál. Meðal annarra hittu þeir að máli hina pólsku Danutu Hübner, núverandi framkvæmdastjóra byggðamála hjá Evrópusambandinu. Verði þessi vettvangur að veruleika má telja víst að samskipti íslenskra sveitarfélaga við evrópsk aukist og styrkist. Hins vegar opnar hann ekki aðgang að hinum öflugu byggðasjóðum ESB, til þess þarf fulla aðild Íslands.

Ágætur árangur

Að sjálfsögðu settu atburðir í fjármálalífi heimsins svip sinn á ráðstefnuna og þátttöku Íslendinga í henni. Þegar þannig stendur á hneigjast fjárfestar til að halda að sér höndum. Umræður í íslenska básnum snerust því oftar en ekki um ástand mála á Íslandi þar sem bankarnir voru að hrynja. Það var hins vegar engan bilbug að finna á íslensku þátttakendunum sem töldu sig hafa náð ágætum árangri með þessari fyrstu ferð sinni á Opna daga, Evrópska viku héraða og borga í Brussel dagana 6.-9. október.