Nú hefur verið tilkynnt um tilnefningar til evrópsku arkitektaverðlaunanna, hinna virtu Mies van der Rohe EU Prize for Contemporary Achitecture. Þrjár íslenskar byggingar komast á þennan eftirsótta lista en af þeim eru tvær staðsettar á Vesturlandi. Þetta eru annars vegar Drangar sem er gistiheimili á Skógarströnd í Dalabyggð og eru hönnuð af arkitektastofunni Studio Granda. Hins vegar er það Guðlaug á Akranesi eftir Basalt arkitekta sem hefur hlotið einróma lof í hönnunarheiminum. Báðar þessar byggingar eru nærumhverfi sínu til mikils sóma og hafa átt ríkan þátt í að vekja jákvæða athygli á sínum svæðum. Að undanförnu hefur komið í ljós að hönnun og menning leika mikilvægt hlutverk í uppbyggingu á ferðaþjónustu og bera þessi verkefni merki um það. Þess má svo geta að Drangar hlutu Hönnunarverðlaun Íslands nú á dögunum.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bygging á Vesturlandi er tilnefnd til Mies van der Rohe verðlaunanna, en áður hafði Stöðin (nú Grillhúsið) í Borgarnesi eftir Krads verið tilnefnd.
Nánar má lesa um tilnefningarnar á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og eru myndir fengnar af þeirra vef.
Guðlaug Mynd: Hönnunarmiðstöð Drangar Mynd: Hönnunarmiðstöð