Kynningaferð um Snæfellsnes, 16. júní 2008

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Mánudaginn 16. Júní var farin upplýsinga- og kynningarferð um Snæfellsnes, sem atvinnuráðgjöf SSV skipulagði fyrir þá aðila sem vinna að opinberri upplýsingagjöf til ferðamanna á Snæfellsnesi.

Ferðin var þannig uppbyggð að hópurinn fór saman í rútu og keyrður var hringurinn um Snæfellsnesið, en þeir aðilar sem í ferðinni voru sáu um upplýsingagjöf og kynningu, hver á sínu svæði. Þannig var miðlað upplýsingum um áhugaverða staði, menningu, sögu og sagnir, auk þess sem kynnt var sú þjónusta sem veitt er á svæðinu. Einnig var stoppað á nokkrum stöðum og fengin kynning á þeirri starfsemi sem þar er. Markmið ferðarinnar var að fólk sem starfar við upplýsingagjöf á svæðinu fengi greinagóða kynningu og mynd af því sem til staðar er á Snæfellsnesi, þannig að allir gætu veitt gestum og gangandi haldgóðar upplýsingar. En einnig að þessir aðilar kynntust til að auðvelda og auka samstarf á milli upplýsingamiðstöðvanna.

Þetta var mjög fræðandi og skemmtileg ferð sem allir þátttakendur voru ánægðir með, enda eru þeir nú mun upplýstari um allt það sem Snæfellsnes hefur upp á að bjóða, og þar af leiðandi hæfari til að miðla upplýsingum til fólks sem til þeirra leitar. Vonandi verður hægt að gera svona ferð að árvissum viðburði.