Glefsa er ný útgáfa hjá SSV

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Með Glefsunni verður greint frá afmörkuðu efni úr Hagvísum eða skýrslum SSV. Í Hagvísum eða skýrslum getur verið mikið efni, flókið og fjölbreytt. Þess vegna var ákveðið að bjóða upp á afmarkaðan hluta úr slíkum ritum í stuttri greinagerð um leið og hún verður til, sem við ákváðum síðan að kalla Glefsu. Í lok vinnslutímans verða síðan allar Glefsur teknar saman ásamt nauðsynlegu stoðefni í Hagvísi eða skýrslu SSV.


Þetta er gert til þess að upplýsingar komi fyrr fram frá okkur og á sem aðgengilegustu formi en hver Glefsa má ekki vera lengri en tvær blaðsíður – á einblöðungi þar sem bakhliðin er valkostur. Við vonum því að þetta verði skref í að bæta upplýsingaflæði frá okkur. Gert er ráð fyrir að fyrsta Glefsan komi út í næstu viku og fjalli um þörf fyrirtækja á Vesturlandi fyrir menntað starfsfólk og byggir á niðurstöðum nýjustu fyrirtækjakönnunar.