Börn í sveitum Vesturlands

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Í dag kom út Hagvísir Vesturlands sem ber yfirskriftina: Börn í sveitum á Vesturlandi. Í hagvísinum var varpað ljósi á fjölgun eða fækkun barna í sveitum á Vesturlandi. Til samanburðar var horft til sömu þróunar í þéttbýli á Vesturlandi, til sveita í öðrum landshlutum og erlendis. Þá var áhugavert að bera saman þróun á fjölda barna gagnvart fjölda fullorðinna. Meginniðurstöður voru að börnum fækkaði um 42% til sveita á Vesturlandi á tímabilinu 1998-2014 á meðan fullorðnum fækkaði bara um 6,6%. Skýrsluna má nálgast á þessari slóð.


Í öðrum landshlutum fækkaði börnum til sveita á bilinu 24-50% – mest á Vestfjörðum og Austurlandi en minnst á Norðurlandi vestra og Suðurlandi. Hins vegar fjölgaði börnum um 3% á landinu öllu á þessu tímabili. Aðrar niðurstöður voru:

  • Fullorðnum fækkaði um 25% á Vestfjörðum, fjölgaði um 3,5% á Suðurlandi en annars staðar var fækkunin svipuð og á Vesturlandi.
  • Fækkun barna til sveita á Vesturlandi var mest í Snæfellsbæ en það fjölgaði í Eyja- og Miklaholtshreppi og Skorradalshreppi á tímabilinu.
  • Fullorðnu fólki fjölgaði yfirleitt til sveita á Vesturlandi, mest um 28% í Hvalfjarðarsveit og Eyja- og Miklaholtshreppi. Borgarbyggð og Helgafellsveit eru þau sveitarfélög sem skera sig úr hvað það snertir: Það fækkar í Helgafellssveit á meðan fjöldi fullorðinna stendur nokkurn veginn í stað í Borgarbyggð.
  • Börnum fjölgaði yfirleitt í þéttbýli á sunnanverðu Vesturlandi en fækkaði í þéttbýli á því norðanverðu. Í tveimur tilvikum, Grundarfirði og Stykkishólmi, var fækkunin um 40% sem er mjög áþekkt því sem gerðist í sveitum.
  • Börnum fjölgaði í 12 af 32 OECD-löndum á árunum 2000-2011. Mest var fækkunin 23% í Póllandi og mest var fjölgunin 17% á Írlandi.
  • Börnum fækkaði í 927 OECD-landshlutum en fjölgaði eða stóð í stað í 433 þeirra. Mest var fækkunin 48% í einum landshluta Tyrklands en mest var fjölgunin 53% í einum landshluta Spánar.
  • Tyrkland, Kórea og Pólland eru þau OECD-lönd þar sem fækkun barna var mest í sem flestum landshlutum.
  • Ísland kemur einna verst út hvað varðar fækkun barna þegar þróunin er borin saman við önnur Norðurlönd.
  • Þróunin felur í sér miklar áskoranir fyrir Íslenskt samfélag. Þróunin er ískyggileg víða til sveita. Um leið tekur hlutverk sveitanna miklum stakkaskiptum í íslensku atvinnulífi og jafnvel útlit fyrir tækifæri í framtíðinni. Enn fremur eru sveitirnar félagslega mikilvægar til að viðhalda ákveðinni fjölbreytni í landinu. Það er því mikilvægt að huga að því hvort slá megi á þessa þróun eða snúa henni jafnvel við.