130 ára fæðingarafmæli Ásmundar Sveinssonar

SSVFréttir

Kona að strokka á Erpsstöðum í Dölum en viðgerð á styttunni fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands í ár. Ljósmynd: Þorgrímur E. Guðbjartsson.

 

 

20. maí er fæðingardagur Ásmundar Sveinssonar, en hann fæddist að Kolstöðum í Dölum árið 1893. Ásmundur var sonur hjónanna Sveins Finnsonar bónda og Helgu Eysteinsdóttur húsfreyju. Á bernskuárum Ásmundar flutti fjölskyldan að Eskiholti í Borgarfirði þar sem Ásmundur sleit barnsskónum. Snemma fór Ásmundur að sýna fram á hæfileika á sviði myndlistar og árið 1915 fór hann í tréskurðanám  til Ríkharðs Jónssonar í Reykjavík. Í framhaldi af því fór Ásmundur til Kaupmannahafnar árið 1918 og lærði teikningu í listaskóla Viggo Brandt. Eftir einn vetur þar lá leiðin til Stokkhólms þar sem Ásmundur útskrifaðist fullnuma listamaður árið 1926.

Ásmundur var einn helsti brautryðjandi í nútímalist (modernism) og fígúrativum skúlptúrum í íslensku listalífi 20. aldar. Hann fór að vekja athygli í list sinni uppúr 1930 þegar hann sneri heim til Íslands eftir ferðalag um hin klassíska listaheim Miðjarðarhafs. Verk hans einkennast af djúpstæðum persónuleikaeinkennum. Til dæmis í verkinu Vatnsberinn túlkar listamaðurinn þyngdina og erfiðið í vatnsburðinum frekar enn að fara í nákvæmt útlit mannslíkamans, eins og hafði tíðkast í verkum forvera Ásmundar á þessum árum. Þessi túlkun og djúpstæði sköpunarkraftur féll ekki alltaf í kramið og til að mynda var Ásmundur einn þeirra listamanna sem átti í deilum við Jónas frá Hriflu þáverandi menntamálaráðherra, sem náði hámarki í svokallaðri Háðungarsýningu Jónasar árið 1942. Ásmundur var sem betur fer fastur fyrir í sinni listsköpun og sagði í viðtali árið 1972 að það væri skylda listamanna að vinna með fantasíuna á tímum þar sem offramboð væri á ljós- og kvikmyndum. Realisminn væri hlutverk ljósmyndarinnar en listamennirnir ættu að skapa og móta hugmyndir. Til gamans má geta að í sama viðtali spáði Ásmundur því  að einn daginn myndi koma vél sem myndi skapa þessar fantasíur og því má segja að hann hafi spáð fyrir um gervigreind sem er að ryðja sér til rúms nú á tímum!

En hvað sem því líður hefur list Ásmundar vakið athygli alveg fram á okkar daga og Dalamenn jafnt sem Borgfirðingar eru stoltir af arfleið listamannsins. Ásmundur bjó og starfaði í Reykjavík fram til dauðadags 9. desember 1982 og ánafnaði Reykjavíkurborg  vinnustofu sinni og heimili auk mikils safns listaverka sem eru í dag hluti af Listasafni Reykjavíkur.

Í tilefni af 130 ára tímamóta listamannsins fór Rjómabúið að Erpsstöðum í þá vegferð að fá til láns eitt verka Ásmundar Kona að strokka frá Listasafni Reykjavíkur. Var gerður áratugalangur lánssamningur og með styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands var farið í viðgerð á styttunni. Henni hefur nú haganlega verið komið fyrir á hlaðinu á Erpsstöðum þar sem hún er búinu og fæðingarsveit listamannsins til sóma.

Er Þorgrími og Helgu á Erpsstöðum færðar kærar þakkir fyrir framtakið.

Víða um Vesturland má virða fyrir sér verk Ásmundar Sveinssonar, en hann taldi að höggmyndir ættu að vera undir berum himni og öllum aðgengilegar. Eftirtfarandi verk er vert að skoða:

Kona að strokka – Erpsstaðir í Dölum

Fýkur yfir hæðir – Leifsbúð (Vínlandssetur) í Búðardal

Óðinshrafninn  – Skallagrímsgarði í Borgarnesi

Heyannir – Egilsholti í Borgarnesi (gegnt Kaupfélagi Borgfirðinga)

Sonatorrek – Borg á Mýrum

Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku – Laugabrekku á Snæfellsnesi

Lífsorka – Háskólinn á Bifröst

Pýramidísk afstraktsjón – Stilliholti, Akranesi