Niðurstöður kynntar á opnum fundi 30. maí – Móttaka skemmtiferðaskipa og farþega á Vesturlandi

SSVFréttir

Þann 30. maí kl. 16:30 í Amtsbókasafninu í Stykkishólmi verður opinn fundur þar sem helstu niðurstöður úr verkefnavinnu og helstu áherslur heimamanna verða kynntar í verkefninu MÓTTAKA SKEMMTIFERÐASKIPA OG SKIPAFARÞEGA Á SNÆFELLSNESI

Stóra sprettverkefni Áfangastaða- og Markaðssviðs SSV á vorönn 2023 hefur verið að vinna með heimafólki að gerð staðbundinna leiðbeininga fyrir skemmtiferðaskip og skipafarþega á Snæfellsnesi. Nú er komið að því að kynna niðurstöður úr verkefninu og verður það gert í Amtsbókasafninu í Stykkishólmi  kl. 16:30 þriðjudaginn 30. maí.

Nánar um verkefnið:
Þetta verkefni er unnið í samstarfi við Sveitarfélagið Stykkishólm, Grundarfjarðarbæ, Snæfellsbæ, Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, Svæðisgarðinn Snæfellsnes og AECO (The Association of Arctic Expedition Cruise Operators – sjá: https://www.aeco.no/
Einnig veitir Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI aðstoð og ráðgjöf.

Markmiðið með verkefninu er að stilla saman strengi og leggja línurnar um hvernig heimafólk á Snæfellsnesi vill taka á móti farþegum skemmtiferðaskipa sem heimsækja svæðið, þannig að einstaka staðir verði ekki fyrir of miklu álagi, gestirnir njóti heimsóknarinnar og samfélagið njóti ávinnings af gestamóttökunni.

Helsta áskorun verkefnisins er að gera stöðugreiningu og kynna sérstöðu svæðisins, vilja og væntingar heimafólks fyrir hagaðilum skemmtiferðaskipa. En einnig að kynna eðli og áherslur í skipaferðaþjónustu fyrir heimafólki og skilgreina tækifæri sem felast í móttöku skipafarþega.

Einnig er mjög mikilvægt að skerpa á tengingum og mikilvægi gagnvirkrar upplýsingagjafar, samskipta og samstarfs milli ferðaskipuleggjenda og hagaðila ferðamála á Snæfellsnesi.

Viðfangsefnið er að sammælast um staðbundnar leiðbeiningar og leiðarljós í þessari ferðaþjónustu og gestamóttöku skemmtiferðaskipa og skipafarþega sem bæði fyrirtækin, heimamenn og gestir geta fylgt sáttir.

Svipað verkefni var unnið sem sprettverkefni Á&M á vorönn 2022 þegar „leiðbeiningar / community guidelines“ fyrir móttöku skemmtiferðaskipa og skipafarþega voru mótaðar með heimafólki á Akranesi í samstarfi við AECO. Afrakstur þeirra vinnu má sjá hér: https://www.aeco.no/guidelines/community-guidelines/akranes-community-guidelines/

Verkefnið sem nú er unnið að á Snæfellsnesi er þó öllu umfangsmeira en verkefnið í fyrra, þar sem það eru fleiri sveitarfélög og samstarfsaðilar í þessu verkefni, stærra landsvæði og fleiri hagaðilar sem unnið er með, og fleiri skemmtiferðaskip sem heimsækja svæðið nú þegar.

Það er því að mjög mörgu að hyggja í þessu verkefni og mjög mikilvægt að tryggja virka þátttöku heimafólks til að fá fram árangursríka vinnu og niðurstöðu á öllum svæðum.

– Glærukynning fyrir verkefnið í heild sinni

nánari upplýsingar um verkefnið og niðurstöður af fundunum  má sjá hérna