Árlega hittast menningarfulltrúar og verkefnastjórar menningarmála hjá landshlutasamtökunum og funda um hin ýmsu mál er snúa að þeirra starfi. Þá er notað tækifærið til að skoða menningarstarf sem eru í gangi á hverjum stað fyrir sig og var engin undantekning á því í ár. Fundirnir eru haldnir til skiptis á milli landshluta og í ár var komið að Vesturlandi að vera í hlutverki gestgjafa.
Dagskrá hófst með fundarsetu á Breið, þróunar- og nýsköpunarseturs á Akranesi, en svo var Byggðasafnið í Görðum heimsótt en safnið hlaut nýverið verðskuldaða tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna. Eftir hádegishressingu hjá Kaju var brunað í Borgarnesi og hlýtt á kynningu Braga Þórs Svavarssonar um skólaþróunarverkefnið „Menntun fyrir störf framtíðar“ í Menntaskóla Borgarfjarðar og fundað með verkefnisstjórum rannsóknarseturs skapandi greina, sem verið er að vinna að í Háskólanum á Bifröst. Því næst var vinnustofa listakonunnar Michelle Bird heimsótt og dagurinn endaði með kvöldverði og gistingu að Hótel Húsafelli. Eftir fundarhöld næsta dag var Snorrastofa í Reykholti heimsótt auk þess sem kíkt var við í Krauma fyrir heimferð.
Þessir staðir sem hér eru upptaldir eiga það sameiginlegt að hafa með einum eða öðrum hætt notið stuðnings frá Sóknaráætlun Vesturlands, t.d. í formi ráðgjafar eða styrkja Uppbyggingarsjóðs Vesturlands. Sóknaráætlun er starfandi í öllum landshlutunum og eru það meginverkefni menningarfulltúanna að hafa umsjón með og koma þeim verkefnum og áherslum í framkvæmd sem þar eru sett á oddinn. Ljóst er að mikil sóknarfæri eru á landsbyggðinni er varðar uppbyggingu menningartengrar starfsemi og hlakkar hópurinn til að takast á við þau verkefni.
Menningarfulltrúar og verkefnastjórar menningarmála hjá landshlutunum eru:
Ástrós Elísdóttir hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Hildur Halldórsdóttir hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra
Logi Gunnarsson hjá Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum
Signý Ormarsdóttir hjá Austurbrú
Sigursteinn Sigurðsson hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi
Skúli Gautason hjá Vestfjarðastofu
Þórður Freyr Sigurðsson hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga
Auk þess tók Svala Svavarsdóttir verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Vesturlands hjá SSV þátt í dagskránni
Sigursteinn Sigurðsson
Menningarfulltrúi