Miðvikudaginn 27. október sl., á Hallgrímsmessu, var afhjúpað söguskilti við Hallgrímskirkju í Saurbæ. Á skiltinu er farið yfir sögu Hallgrímskirkju, Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur. Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar flutti ávarp og að því loknu afhjúpaði biskup Íslands sr. Agnes M. Sigurðardóttir söguskiltið og kór Saurbæjarprestakalls söng. Að því loknu var stund í kirkjunni sem sr. Þráinn Haraldsson stjórnaði. Sr. Kristján Valur Ingólfsson sagði frá því þegar Hallgrímur Pétursson kom í Saurbæ, biskup Íslands sr. Agnes M. Sigurðardóttir flutti bæn og blessun. Kór Saurbæjarprestakalls undir stjórn Benedikts Kristjánssonar söng við undirleik Bjarna Frímanns Bjarnasonar og Benedikt Kristjánsson tenór flutti kirkjuljóð eftir Jón Leifs.
Þetta er fyrsti liður í verkefninu „Merking sögu og merkisstaða í Hvalfjarðarsveit“. Verkefnið er unnið í samstarfi við Markaðsstofu Vesturlands og byggir á samstarfi þriggja sveitarfélaga við Hvalfjörð sem eru Kjósarhreppur, Hvalfjarðarsveit og Akranes og gengur út á þróun ferðaleiða um Hvalfjörð og út á Akranes. Verkefnið nýtur stuðnings frá Sóknaráætlun Vesturlands, Styrktarsjóði EBÍ, Faxaflóahöfnum og Mjólkursamsölunni.
Góð mæting sveitunga og gesta var á viðburðinn sem fram fór í góðu veðri.