Á dögunum lauk Hæfnihringjum, samstarfsverkefni landshlutasamtaka/atvinnuþróunarfélaga, sem snýr að stuðningi fyrir konur í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni.
Hæfnihringirnir fóru af stað í byrjun febrúar og stóðu yfir í 5-6 vikur. Alls voru 40 konur skráðar um land allt. Konunum var skipt upp í 6 hópa og fóru þeir fram á netinu í gegnum forritið Zoom.
Verkefnið er byggt á evrópuverkefninu FREE, Female Rural Enterprise Empowerment, en kveikjan að því verkefni var að rannsóknir sýndu að frumkvöðlakonur á landsbyggðinni hafa oft ekki tök á því að ferðast um langan veg til að taka þátt í námskeiðum eða fundum um stofnun og rekstur fyrirtækja. Þær vilja hafa aðgang að fræðslu og gagnlegu efni í gegnum netið en auk þess eru tengslanet oft á tíðum ekki eins öflug og á þéttbýlli svæðum. Með þátttöku í hæfnihringjunum fá konur á landsbyggðinni aðgang að fræðslu sem snertir þeirra rekstur sem og dýrmætt tengslanet við konur sem standa í svipuðum sporum og geta miðlað af sinni reynslu.
Hæfnihringirnir eru byggðir á jafningjafræðslu og á aðferðafræði sem kallast aðgerðanám. Aðgerðarnám grundvallast á því að nota raunverulegar áskoranir, verkefni og tækifæri sem grunn fyrir lærdóm. Í hópunum var meðal annars farið yfir markmiðasetningu, tímastjórnun og markaðssetningu á samfélagsmiðlum.
Í haust er stefnan sett á að fara aftur af stað með nýja hópa. Hæfnihringirnir verða auglýstir nánar þegar nær dregur.