Átta þjóðfundir í öllum landshlutum (Vesturland, laugardaginn 20. febrúar í Borgarnesi)

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Verkefnið á þjóðfundum landshlutanna verður að setja fram hugmyndir um framtíðaráform á viðkomandi svæði til eflingar atvinnulífs og samfélags á grundvelli sérstöðu og styrkleika svæðanna. Þessi vinna verður grundvöllur að áætlun hvers landshluta innan þeirrar sóknaráætlunar sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gerð verði og tillaga til þingsályktunar hefur verið lögð fram um á Alþingi. Gert er ráð fyrir að 2-3 ráðherrar úr ríkisstjórninni verði á hverjum þjóðfundi í landshlutunum ásamt fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Undirbúningur er í höndum stýrihóps um sóknaráætlun en framkvæmd þjóðfundanna átta verður á vegum landshlutasamtaka á hverjum stað. Heimild: www.forsaetisraduneyti.is


  • Austfirðingar hittast til þjóðfundar laugardaginn 30. janúar á Egilsstöðum, Vestfirðingar laugardaginn 6. febrúar á Ísafirði, Norðvestlendingar laugardaginn 13. febrúar á Sauðárkróki, Vestlendingar laugardaginn 20. febrúar í Borgarnesi, Norðaustlendingar laugardaginn 27. febrúar á Akureyri, Sunnlendingar laugardaginn 6. mars á Selfossi, Suðurnesjamenn laugardaginn 13. mars í Reykjanesbæ, og höfuðborgarbúar í Reykjavík laugardaginn 20. mars.

  • Á upplýsingavef stjórnvalda, island.is, er í dag opnað sérstakt vefsvæði 20/20 Sóknaráætlunar fyrir Ísland. Þar er hægt að sjá út á hvað verkefnið gengur, skipulag hvers verkþáttar um sig og hvernig fyrirhuguð framvinda þess verður. Bætt verður við efni jafnóðum og það fellur til á næstu vikum og mánuðum.

  • Þann 28. janúar boðar forsætisráðherra jafnframt til opins fundar um Sóknaráætlun á Grand Hótel í Reykjavík. Þar munu grasrótarhópar, hagsmunaaðilar og samtök sem sett hafa fram stefnumótun fyrir atvinnulíf og samfélag á undanförnum máuðum gera grein fyrir niðurstöðum sínum og hvernig hún getur nýst fyrir stefnumótun stjórnvalda og endurreisn Íslands. Á vormánuðum er verða jafnframt boðaðir opnir fundir undir merkjum sóknaráætlunar um umbætur og endurskipulagningu í opinberri þjónustu, menntamál, atvinnustefnu, bætta samkeppnishæfni, umhverfismál og náttúruvernd auk fundar þar sem dregnar verða saman sóknaráætlanir landshlutanna.

  • Þá má nefna að í tengslum við stefnumótun 20/20 Sóknaráætlunar fyrir Ísland efnir forsætisráðherra til viðamikils fundar á Selfossi n.k. fimmtudag 21. janúar þar sem saman munu koma þeir sem unnið hafa að undirbúningi sóknaráætlunar 20/20. Markmið fundarins er að draga fram helstu styrkleika og veikleika íslensk samfélags, og leggja mat á tækifæri og ógnanir sem blasa við þjóðinni. Á þeim grunni er ætlunin að skilgreina það leiðarljós sem sóknaráætlunin skal fylgja. Ætlunin er að út úr fundinum komi 10-15 lykilatriði og verkefni sem áhersla verður lögð á og líkleg eru til að skapa samfélaginu viðspyrnu með hagsæld, sjálfbærni, lífsgæði og jöfnuð að leiðarljósi. Á fundinum verða kynntar niðurstöður viðamikillar greiningarvinnu sem tengist sóknaráætluninni.

Í stýrihópi Sóknaráætlunar 20/20 eru Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kristján L. Möller samgönguráðherra, Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður bæjarráðs á Akureyri og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.