31 – SSV stjórn

admin

31 – SSV stjórn

F U N D A R G E R Ð

Stjórnarfundur í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.
Haldinn í Búðardal, 28. nóvember 2003.

 

Stjórnarfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, haldinn á skrifstofu Dalabyggðar í Búðardal föstudaginn 28. nóvember 2003.
Eftirtaldir sátu fundinn.  Kristján Sveinsson, varaformaður, Sveinbjörn Eyjólfsson, Jón Gunnlaugsson, Guðrún Jóna Gunnarsdóttir og Sigríður Finsen.  Helga Halldórsdóttir, formaður, forfallaðist og stjórnaði varaformaður fundi.  Ásbjörn Óttarsson boðaði einnig forföll.

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. RÚV.
2. Kynningarfundir um sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga.
3. Fundur þingmanna Norðvesturkjördæmis og stjórna landshlutasamtakanna, SSNV, SSV og FV.
4. Erindi frá UKV.
5. Málefni atvinnuráðgjafar.
6. Umsagnir þingmála.
7. Framlagt efni. 
8. Framlagðar fundargerðir.
9. Önnur mál.

 

Stjórn hóf fundinn með því að heimsækja Dalalamb ehf. undir leiðsögn sveitarstjóra, Haraldar Líndal og Ragnheiðar Rúnarsdóttur.

 

1.  RÚV.
Rætt erindi Gísla Einarssonar um styrk til að tryggja húsnæði undir rekstur RÚV – hljóðver á Vesturlandi.  SSV hefur beitt sér fyrir því við Ríkisútvarpið að starfsemi RÚV megi eflast á svæðinu og núverandi starfsemi verði útvíkkuð og efld.  Stjórn SSV gerir sér vonir um að RÚV geti orðið við beiðninni og í þeirri von var samþykkt að styrkja Gísla um leigu á húsnæði til áramóta, kr. 30.000.-  Einnig var formanni og framkvæmdastjóra falið að fylgja þessu máli eftir áfram við RÚV.

 

2.  Kynningarfundir um sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga.
Borist hefur beiðni frá verkefnisstjórn átaks í sameiningarmálum sveitarfélaga um ósk um samstarf um kynningarfundi um sérstakt átak í sameinngu sveitarfélaga.  Sameiningarátakið lýtur m.a. að endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að treysta sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsforræði byggðarlaganna.
Kynningarfundur er áformaður fyrir Vesturland í janúar.
Samþykkt að taka vel í erindi verkefnisstjórnarinnar.

Sigríður Finsen sagði frá kynningu verkefnisstjórnar sem fram fór á Fulltrúaráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga föstudaginn 21. nóvember sl.  Hún sagði nálgunina vera nokkuð á öðrum nótum en svo oft áður sem væri ánægjulegt.

 

3.  Fundur þingmanna Norðvesturkjördæmis og stjórna landshlutasamtakanna,
SSNV, SSV og FV.
Sagt frá fundi stjórna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra með þingmönnum Norðvesturkjördæmis miðvikudaginn 22. október 2003.  Frá Vesturlandi sátu fundinn Helga Halldórsdóttir, Sigríður Finsen, Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, Jón Gunnlaugsson, Hrefna B. Jónsdóttir og Ólafur Sveinsson. 

 

4.  Erindi frá UKV.
Upplýsinga- og kynningarmiðstöð Vesturlands sækir um 2.000.000 kr. rekstrarframlag vegna ársins 2004.  Samþykkt framlag til UKV 1.500.000 kr.

 

5.  Málefni atvinnuráðgjafar.
a.  Samningur við Akranes
Lagður fram samningur við Akraneskaupstað um tilhögun á starfsemi atvinnuráðgjafarinnar á Akranesi.  Drög að samningi byggja á samkomulagi en samkvæmt bókun stjórnarfundar frá 18.06.2003 var þáverandi formanni, Kristni Jónassyni og Gísla Gíslasyni, bæjarstjóra á Akranesi falið að vinna úr erindi Akraneskaupstaðar til SSV.

Sveinbjörn sagðist hafa ákveðnar efnasemdir um þennan samning, einkum aðra grein hns þar sem verið sé að staðsetja fyrirfram ákveðna fjármuni.   

Varðandi skilgreiningu verkefna voru stjórnarmenn sammála um að þau verkefni sem eiga að vera nánar skilgreind samkv. 2. gr. skuli fá samþykki innan stjórnar SSV.

Samningurinn samþykktur í þeirri mynd sem hann er lagður fram en Sveinbjörn lýsti yfir vonbrigðum með 2. gr. samningsins.

 

b.  Byggðastofnun, átak til atvinnusköpunar.
Ólafur Sveinsson sagði frá fundi í Iðnaðarráðuneytinu þar sem fulltrúar frá Byggðastofnun óska eftir samstarfi við atvinnuþróunarfélögin um tilnefningu á vel mótuðum stuðningsverkefnum sem eru til þess fallin að efla grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar á landsbyggðinni.  Um er að ræða 150 millj. kr. pott og verður einungis leitað til atvinnuþróunarfélaga, og stofnana sem styðja við atvinnumál varðandi tilnefningu verkefna. 

Samþykkt að kynna verkefnið fyrir sveitarstjórnum á Vesturlandi.

 

c. Impra, Skrefi framar á Vesturlandi.
Ólafur kynnti þau verkefni sem sótt hafa um í verkefnið ,,Skrefi framar á Vesturlandi” sem er samstarfsverkefni SSV og Impru. 

 

d.  Framlög til atvinnuþróunarfélaga.
Greint frá vinnu þriggja manna þrýstihóps sem hefur unnið að því, ásamt fulltrúum frá Byggðastofnun, að fá framlög hækkuð á fjárlögum vegna atvinnuþróunarfélaganna.  Framlög samkvæmt fjárlögum hafa ekki hækkað í krónum talið frá árinu 1998 en hefur Byggðastofnun bætt framlögin en telur sig ekki geta það fyrir komandi ár. Vonir standa til að fjárlaganefnd nái fram hækkun.

 

e.  Ráðstefna um stóriðjumál.
Ólafur kynnti hugmyndir um ráðstefnu um stóriðjumál og lagði fram drög að kostnaðaráætlun yfir ráðstefnuna.  Hugmyndir eru uppi um að halda ráðstefnuna í byrjun febrúar í samvinnu við Viðskiptaháskólann á Bifröst, Norðurál og Íslenska Járnblendifélagið.  Auk þess verður leitað til nágrannasveitarfélaga, Samtaka iðnaðarins, Iðnaðarráðarins um kostnaðarhlutdeild.
Samþykkt að veita 300.000 kr. styrk til undirbúnings ráðstefnunnar auk framlags starfsmanna ATSSV.

 

f. Klasaverkefni.
Ólafur sagði frá hugmyndum um vinnslu klasaverkefnis í samvinnu við Iðntæknistofnun og Ívar Jónsson, doktor við Viðskiptaháskólann á Bifröst.

 

6.  Umsagnir þingmála.
• Frumvarp til laga um fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.
• Tillaga til þingsályktunar um gjaldfrjálsan leikskóla.
• Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna.
• Tillaga til þingsályktunar um stofnun stjórnsýsluskóla.
• Tillaga til þingsályktunar um aldarafmæli heimastjórnar.
• Tillaga til þingsályktunar um raforkukostnað fyrirtækja.
• Frumvarp til laga um samgönguáætlun.
• Tillaga til þingsályktunar um vernd og sjálfbæra nýtingu lífvera á hafsbotni.
• Tillaga til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað útgerðar og fiskvinnslu.
• Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir gegn ójafnværi í byggðamálum.
• Frumvarp til laga um tekjuskatt og eignarskatt.
• Tillaga til þingsályktunar um aflétingu veiðibanns á rjúpu.
• Tillaga til þingsályktunar um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum.
• Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands.
• Frumvarp til sveitarstjórnarlaga, 30. mál. Lágmarksstærð sveitarfélags.
• Tillaga til þingsályktunar um eflingu félagslegs forvarnastarfs.
• Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum, 301. mál.
• Frumvarp til laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar,
• Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri.

 

7.  Framlagt efni. 
• Fundargerð skólanefndar Fjölbrautaskóla Vesturlands.
• Upplýsingar um fjölda nemenda við FV.
• Afrit af bréfi Snæfellsbæjar, uppsögn á samningi um FV.
• Afrit af bréfi Dalabyggðar.
• Skýrsla formanns stjórnar Spalar frá aðalfundi 20.11.03.
 
8.  Framlagðar fundargerðir.
Sorpurðun Vesturlands og Símenntunarmiðstöðin.

 

9.  Önnur mál.
Gjaldskrárbreyting Sorpurðunar Vesturlands.

Rætt var um niðurstöðu skýrslu starfshóps um lækkun og/eða niðurfellingu gjalds í Hvalfjarðargöng.  Framkvæmdastjóra falið að skoða niðurstöðu skýrslunnar betur m.t.t. þess hvort stjórn vill álykta um niðurstöðuna.

 

Sveinbjörn fagnaði orðum samgönguráðherra á Hvanneyri 14. nóvember sl. en við vígsluræðu skrifstofuhúsnæðis Borgarfjarðarsveitar sagðist ráðherra vilja vinna að því, í samstarfi við þingmenn Norðvesturkjördæmis, að fleiri landbúnaðarstofnanir yrðu fluttar að Hvanneyri.

 

Í lok fundar voru fundarmenn leystir út með hangiketi sem unnið er hjá Dalalambi ehf. í Búðardal.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið.

 

Fundarritari.
Hrefna B. Jónsdóttir.