8 – Hópur um almenningssamgöngur

admin

8 – Hópur um almenningssamgöngur

Fundur vinnuhóps um almenningssamgöngur á Vesturlandi

Haldinn 19. ágúst 2013 á skrifstofu SSV í Borgarnesi 

Mættir: Eyþór Garðarsson (EG), Lárus Á Hannesson(LAH), Páll Brynjarsson (PB), Ása Helgadóttir (ÁH), Pétur Davíðsson (PD), Reynir Þór Eyvindarson (RÞE), Gunnar Sigurðsson (GS), og Kristinn Jónasson (KJ).

 

Ingveldur Guðmundsdóttir (IG) boðaði forföll.

 

Einnig sátu fundinn Ólafur Sveinsson (ÓS) og Anna Steinsen (AS).

 

1.    Setning fundar

Páll setti fund og fór yfir þau atriði sem fyrir lágu, ennfremur tilkynnti hann að Smái Ólafsson hefði boðað forföll vegna veikinda og dagskrárliður sem hann átti að vera með félli því niður.

 

2.    Farið yfir stöðu fjármála / farþegatölur 

ÓS fór yfir afkomu frá 1. september 2012 til  31. júlí 2013. Niðurstaða þessa 11 mánaða er halli upp á 23,3 mkr. Fyrirséð er að halli verður á þessu nýja kerfi á 12 mánaða tímabili (1.09.2012-31.08.2013), en einnig er ljóst að hallinn var allur á fyrstu fjóru mánuðunum. ÓS fór jafnframt yfir minnisblað sem hann lagði fram. Niðurstaða þessara 12 mánaða er óásættanleg og hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til að draga úr kostnaði á haustdögum, spurning hvort það verði nægjanlegt. Ennfremur er ljóst að farþegafjöldi hefur verið að vaxa og vonandi eru þessir 4 mánuðir á síðasta ári ekki einkennandi fyrir kerfið. Farþegafjöldi fyrsta rekstrarárs stefnir í að verða yfir 100 þús á fyrsta  rekstrarári í nýju kerfi skv. talningu Strætó.

 

PB gaf orðið laust og LHA nefndi nokkur atriði sem þyrfti að skoða og hann hefði nefnt á síðasta fundi, þ.e. að gerð yrði samantekt á því hverju breytingarnar á almenningssamgöngum hefðu skilað. Staðan á hverju svæði fyrir sig gagnvart þjónustu og kostnaði metin og borin saman við sömu forsendur fyrir breytingar.

 

KJ talaði um að tapið væri uppsafnaður vandi og ræða þyrfti við hin landshluta-samtökin um aðkomu að fjármögnun tapsins og að fjárhagsleg ábyrgð á kerfinu  þyrfti að vera skýr. Einnig benti hann á að þjónustuframboð yrði að vera í samræmi við eftirspurn, þannig að ekki væri verið að keyra leiðir sem ekki væru farþegar á. Hann lagði áherslu á að fundnar yrðu leiðir til að slátra hallanum og ítrekaði mikilvægi þess að klára málið. Jafnframt taldi hann Strætó væri farinn að virka betur en í upphafi og fólk farið að átta sig á þeim möguleikum sem í kerfinu felast.

RÞE sagðist hafa verið búin að benda á að þetta yrði niðurstaðan. Hann ræddi blaðaskrif um almenningssamgöngur, útboðsferli o.fl. og setti fram spurningar um hvort hægt væri að taka upp samninga og kallaði eftir útboðsgögnum.

 

EG ræddi olíugjaldið sem sett var á almennings-samgöngurnar í febrúar með niðurfellingu á afslætti á olíugjaldi til almenningssamganga og var með vangaveltur um hlutverk Strætós í þjónustusamningnum. ÁH tók undir það sem KJ hafði sagt.

 

GS taldi nauðsynlegt að báðar leiðirnar yrðu skoðaðar, þ.e. sparnað í akstri eða að leitað yrði til sveitarfélaga með fjármögnun á halla.

 

PD taldi tímasetningu breytinga á sumar/vetrarakstri og vetrar/sumarakstri ekki henta landsbyggðinni og því ekki rétt að láta breytingar fylgja tímasetningum breytinga í Reykjavík. Hann kom með þá spurningu hvort ekki væri rétt að skoða þann möguleika að láta sveitarfélögin sjálf annast aksturinn á litlu leiðunum, þau væru jafnvel bæði með mannskap og bíla til að framkvæma aksturinn og því væri þetta mjög hagkvæmt.

 

PB fór yfir þau atriði sem fram komu. Lagði áherslu á að við værum komin með kerfi sem virkar og tók undir að skoða þyrfti einstakar leiðir. Hann taldi rétt að kalla eftir útboðsgögnum og fá fulltrúa frá Strætó til að koma á fund og ræða málefni varðandi útboðsgögnin. Páll taldi að  2 atriði stæðu upp úr eftir yfirferð fundarins. Annars vegar  þyrfti að koma á fundi með þeim landahlutasamtökum sem koma að verkefninu og fá þau til að taka þátt í að leysa vandann varðandi hallann og hins vegar þyrfti að kynna þessa stöðu vel á aðalfundi SSV.

 

Einnig var nefnt varðandi kynningar- og markaðsmál að sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar ættu að vera með „strætóhnapp“ á heimasíðum sínum og SSV falið að skrifa grein um almenningssamgöngur sem birt yrði í miðlum á svæðinu nú þegar eins árs reynsla væri komin á verkefnið.

Í frekari umræðum komu fram sjónarmið um að mikilvægt væri að fá fram afstöðu Innanríkis-ráðuneytis til almenningssamganga.

 

3.    Önnur mál 

ÓS dreifði tölvupósti frá Strætó þar sem tilkynnt var að frá og með haustinu yrði stoppað í öllum ferðum við Esjurætur, þar sem þar yrðu farþegar sem sækja skóla til Reykjavíkur. Fram komu viðbrögð um að þetta yrði mjög óvinsælt.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:20

Fundargerð ritaði ÓS