28 – SSV samgöngunefnd

admin

28 – SSV samgöngunefnd


F U N D A R G E R Ð
Fundur í samgöngunefnd SSV.

Fundur haldinn á Nefndasviði Alþingis, miðvikudaginn 21. apríl 2010 kl. 12.

Mætt voru: Guðbjartur Hannesson, Einar Kristinn Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Guðmundur Steingrímsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir frá Alþingi.  Davíð Pétursson, Kristinn Jónasson og Finnbogi Leifsson frá Samgöngunefnd SSV.  Einnig sátu fundinn Hrefna B. Jónsdóttir frá SSV og Magnús Valur Jóhannsson frá Vegagerðinni.

 

Davíð gerði grein fyrir lágum framlögum til framkvæmda og viðhaldsverkefna á árinu 2010 og fór yfir tölur sem fram eru komnar í drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2009 – 2012.
Hann gerði sérstaklega að umtalsefni umferðaröryggi m.t.t. malarvega, viðgerða á malbiksvegum, girðingum meðfram þjóðvegum o.fl.
Hann fór yfir tölur sem FÍB hefur tekið saman samkvæmt beiðni samgöngunefndar SSV en í þeim gögnum koma fram upplýsingar um þær tekjur sem ríkið hefur af bifreiðum í formi vörugjalda, vsk-tekna, olíugjalds, þungaskatta og fleiri liða sem fram koma í fyrrnefndri samantekt . 

 

Dreift var til þingmanna ályktunum samgöngunefndar frá síðasta aðalfundi SSV og einnig yfirliti sem Magnús Valur hefur tekið saman yfir þau verkefni sem hefur verið frestað í núverandi vegaáætlun.   Davíð fór yfir þessi verkefni með þingmönnum.


Kristinn fylgi því eftir og sagði ekkert minni þörf á þessum verkefnum nú en var.
Hvað viðhaldsmál varðar þá er það kostnaðarsamt að láta vegina tapast niður því ódýrara telst að halda vegum í horfinu. 

 

Magnús Valur sagði það sárt að horfa upp á ágæta vegi tapast niður vegna viðhaldsleysis.  Mikið væri um að fólk væri að sækja vinnu í sveitum í dag og því væri brýnt að halda þjónustustigi við íbúana. 
Hann fylgdi eftir þeim breytingum sem tengjast fjármagni til framkvæmda í Gufudalssveit.
Hann sagði það ekki auðvelt að standa frammi fyrir fólkinu í landinu með þá stöðu sem lagt er upp með.

 

Ásbjörn Óttarsson, fyrsti þingmaður NV-kjördæmis fór yfir stöðu mála út frá ríkinu.  Hann taldi NV kjördæmið afskipt.

Einar Kristinn sagðist ekki geta fallið í þá freistni að fjalla um samgöngumál  NV kjördæmis þar sem hér væri verið að tala við samgöngunefnd Vesturlands. Hann sagði þetta ákveðinn veruleika sem blasir við í þeim tölum sem fram hafa komið.
Hann spurðist fyrir um hvort eitthvað af verkefnum sem fram koma í yfirlitinu væri inni í tillögunni eins og hún liggur fyrir.  Hann sagði þrýsting á þingmenn hafa aukist vegna tengiveganna enda hefði umferð um þá aukist verulega með breytti búsetu fólks.  Meira vægi væri á þá nú en áður.  Hann spurði hvort möguleiki væri á því að sjá framkvæmdir á þeim á árinu 2011?

 

Ólína Þorvarðardóttir sagði alþingismenn standa frammi fyrir fólkinu í landinu og ef vegaáætlun væri óhagstæði væru þingmenn gerðir ábyrgir fyrir því en ekki starfsmenn Vegagerðarinnar.  Ólína sagði okkar kjördæmi ekki afskipt.  NV kjördæmið væri að fá sambærilegar upphæðir við önnur svæði hins vegar væri verkefnum misskipt innan svæða.  Hún spurðist fyrir um hver forgangsröðun Vesturlands væri?

 

Guðbjartur Hannesson þakkaði fyrir fundinn og taldi gott að hitta fulltrúa Vesturlands.  Hann sagði ákveðið vinnuferli í gangi sem Magnús þekkti betur en hann.  Þingið tæki við tillögum frá Vegagerðinni.  Hann sagðist hafa rætt það við Ásbjörn að senda samgönguáætlunina á landshlutasamtökin og biðja um forgangsröðun.  Það væri alveg ljóst að það væri ekki hægt að setja meira fjármagn í þennan pott.  Ef heimamenn vilja velja það að setja meira fjármagn í viðhaldsframkvæmdir þá yrði að skoða það.  Hann ræddi um veggjöld. 
Hvað tekjur ríkissjóðs af ökutækjum varðar þá sagðist Guðbjartur hafa ætlað að hjóla í það fjármagn sem merkt er umferð þegar hann varð þingmaður en það hefði ekki verið eins auðvelt og hann hefði haldið.  Hann brýndi menn að skoða það að vinna forgangsskoðun heima fyrir og taldi hann vilja fyrir því hjá alþingismönnum að ræða það. 

 

Lilja Rafney tók undir þá umræðu sem fram kom á fundinum.  Hún spurðist fyrir um styttingu þjóðvegar 1 um Blönduós.

 

Guðmundur Steingrímsson sagði það gott að fá skýra forgangsröðun heimamanna þar sem það væru erfið ár framundan.  Hann sagði einnig gott að fara að sjá 12 ára áætlunina þá yrði hægt að sjá hvaða verkefni koma til framkvæmda þegar birti til í þjóðfélaginu.  Fá langtímaáætlunina upp á borðið.  Hann ræddi um veggjöld og þá umræðu sem hefur átt sér stað innan nefndar þingsins um veggjaldamál.

 

Magnús Valur svaraði fyrirspurn um tengivegi og vísaði til þingsályktunartillögu.  Hann fór yfir þau verkefni sem eru á samantektarlista frá samgöngunefndinni, þ.e. hvaða verkefni væru komin inn aftur en það eru Borgarfjarðarbrúin/vegrið og brú á Reykjadalsá og Haffjarðará.
NV kjördæmið er með 40% af vegakerfinu.  MVJ taldi margt koma til í forgangsröðun verkefna. 
Hann svarði fyrirspurn Lilju Rafneyjar með vegstyttingu þjóðvegar nr. 1 í Húnavatnssýslum.

 

Davíð fór yfir fjármagn til tengivega og sagði fjárþörf svæða ættu að taka tillit til vegakerfa svæðanna og vísaði til vegakerfis NV kjördæmis. 

 

Kristinn Jónasson sagðist skilja þá erfiðu stöðu sem þingmenn væru í.  Hann sagðist hins vegar ekki skilja áherslur áætlunarinnar.  Hann taldi umfangsminni verk skila meiru til byggðanna og væri það mjög mikilvægt á síðustu og verstu tímum.  Hann sagði það hollt og gott að kortleggja þær framkvæmdir sem hægt væri að fara í næstu 20 árin.  Setja þau verkefni í umhverfismat, þ.e. þar sem það þyrfti.  Sem sagt, hvar má leggja vegi og hvar er það hægt.  Hann sagði Vegagerðina, væntanlega, hafa meiri tíma í dag til að skoða ákveðnar leiðir. 

 

Finnbogi sagði það nokkuð ljóst að kjördæmið væri afskipt m.v. vegalengdir.  Hann sagði vegina tala sínu máli.  Hann sagði héraðs og tengivegi víða í slæmu standi og hann hefði áhyggjur af því að héraðsvegir sætu á hakanum.  Það yrði að horfa til þess.  Hann nefndi einnig fjarskiptamál en víða væri slæmt farsíma og netsamband.  Hann beindi því til þingmanna að skoða það.

 

Guðbjartur nefndi lífeyrissjóðina og verið væri að leita ráða til að fjármagna framkvæmdir sem bera sig.  Mörg form hefðu verið skoðuð enda mikilvægt að skoða möguleikana vel, bæði út frá ríki og lífeyrissjóðunum.
Hann lagði áherslu á gott samstarf milli alþingismanna og sveitarstjórnarmanna.

 

Davíð ræddi tekjupósta eins og olíugjald og frekari innheimta á vegakerfinu væri viðbótarinnheimta á bifreiðaeigendur.  Hann vísaði til kílóagjalds sem átti að leggjast á til tveggja ára á sínum tíma.  Nú telur þetta gjald tekjur á sjötta milljarð til ríkisins og væri bara skattur ofaná allt annað.  Hann spurðist fyrir um kostnað við hugmyndir um þá ,,kubbahugmynd“ sem væri verið að tala um.

 

Guðmundur S.  sagði þessa aðferð notaða, eins og í Noregi, til að fá framkvæmdir fyrr að veruleika.

Rætt um vegatollakerfi í Hollandi, kubbar sem tengjast GPS í bílum.

 

Hrefna B. Jónsdóttir fór yfir verkefni sem unnið hefur verið á vegum SSV sem er ,,Vegstyttingar framundan á Vesturlandi, Uxahryggir, Eldborgarvegur og Grunnafjörður. 

 

Kristinn sagði þau gögn sem lögð hefðu verið fram vera gagnabanki Vestlendinga.  Hann nefndi Uxahryggjaveg ekki eingöngu verða góðan veg fyrir ferðaþjónustuna, vegurinn tengdist einnig öryggismálum.
Hann sagði mikilvægt að hefja skoðun á þeim framkvæmdum sem kynnar hefðu verið.

Nokkur umræða varð í lokin um einstaka framkvæmdir og aðferðafræði við öflun frekara fjármagns til viðhalds og framkvæmda á Vesturlandi.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13:20
Fundarritari: Hrefna B. Jónsdóttir