Vel heppnað Ungmennaþing á Snæfellsnesi

SSVFréttir

Síðastliðna helgi komu ungmenni víðsvegar af Vesturlandi saman í Lýsuhólsskóla á Snæfellsnesi og héldu ungmennaþing. Með í för voru æskulýðs- og tómstundarfulltrúar og menningar- og velferðarfulltrúi SSV.

Fulltrúar komu frá sex sveitarfélögum á Vesturlandi og voru ýmis mál rædd í umræðuhópum. Öll mál í okkar samfélagi eru mál ungs fólks og þingið sannar að ungt fólk hefur sterkar skoðanir og vill hafa áhrif í sínum samfélögum. Til dæmis bar á góma gildi og nauðsyn lífsnáms í grunn- og framhaldsskólum, þ.e. kynjafræði, kynfræðsla, fjámálalæsi og geðheilbrigði. Einnig voru rædd mál eins og húsnæðismál, samgöngumál, heilbrigðis á Vesturlandi og margt fleira.

Á þingið mættu jafnframt góðir gestir sem miðluðu þekkingu og reynslu. Guðmunda Bergsdóttir starfsmaður Ungmennaráðs Árborgar kynnti þau verkefni sem þau hafa staðið fyrir og stjórn Hinsegin Vesturlands kom í heimsókn og kynnti fræðslu, forvarnir og Hinseginhátíð félagsins sem verður haldin í Snæfellsbæ í ár.

Á þingið mættu svo frambjóðendur frá Akraneskaupstað, Borgarbyggð og Stykkishólmsbæ og svöruðu spurningum þinggesta um stefnumál og komandi verkefni á sínum svæðum. Spunnust upp líflegar umræður sem gáfu frambjóðendum gott veganesti í komandi kosningabaráttu.

Ungmennaráð Vesturlands er starfandi samkvæmt stefnu Velferðarstefnu Vesturlands. Það er skipað fulltrúum úr ungmennaráðum sveitarfélaganna í landshlutanum og starfar í eitt ár í senn. Ungmennaþing Vesturlands er þá eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands og er haldið á tveggja ára fresti. Það átti með réttu að vera haldið haustið 2020 en var frestað í tvígang vegna heimsfaraldursins. Ívar Orri Krstjánsson starfsmaður æskulýðs- tómstundarsviðs Akraneskaupsstaðar var verkefnastjóri þingsins.

Sigursteinn Sigurðsson
Verkefnastjóri velferðarstefnu Vesturlands
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi