Reykholtshátíð tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna

SSVFréttir

Á dögunum voru opinberaðar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna og þar á meðal er Reykholtshátíð 2021 sem tilnefnd er til verðlauna í flokki tónlistarviðburður ársins og hátíðir í flokki sígildrar- og samtímatónlistar. Hátíðin í fyrra var haldin í skugga samkomutakmarkana, en þó náðist að halda hana með eðlilegu sniði á milli covidbylgna. Verkefnið var styrkt sérstaklega í gegnum verkefnið Viðburðir á Vesturlandi, sem var áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands árið 2021 og gekk út á að efla listir og menningartengda ferðaþjónustu í landshlutanum í skugga heimsfaraldrar. Þá hlaut hátíðin styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands árið 2022.

Reykholtshátíð, sem var haldin í 25 skipti hefur skapað sér sess sem ein helsta menningarhátíð sígildrar tónlistar hér á landi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hátíðin er tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna, en hún hlaut tilnefningu árið 2018 og 2020. Listrænir framkvæmdastjórar Reykholtshátíðar 2021 eru Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari og Þórunn Ósk Marinósdóttir víóluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þá eru fleiri vestlendingar tilnefnir til tónlistarverðlaunanna í ár. Soffía Björg Óðinsdóttir er tilnefnd fyrir söng ársins í flokki popp, rokk, rapp & hipp hopp og raftónlistar. Breiðskífan The Company You Keep kom út í lok síðasta árs og hefur hlotið góða dóma og var meðal annars plata vikunnar á Rás2.

Anna Þorvaldsdóttir tónskáld er með þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Það eru fyrir Catamorphosis sem tónverk ársins, Enigma sem plata ársins og fyrir AIŌN sem tónlistarviðburður ársins, allt í flokki sígildrar tónlistar. Anna hefur hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga fyrir verk sín, meðal annars Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2021 og tilnefningu til Grammy verðlaunanna.

SSV óskar listafólkinu innilega til hamingju með tilnefningarnar!

Nánar um Íslensku tónlistarverðlaunin