Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi ásamt Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra óskuðu eftir því við Deloitte, að skoða afkomu sjávarútvegsfyrirtækja árin 2016 og 2017 og horfa þá einkum til veiðigjalda þau árin. Úttekt Deloitte má finna hér (Hlekkur hér, smellið).
Í kjölfarið var samin sameiginleg ályktun. Í framhaldi var hópurinn boðaður á fund atvinnumálanefndar Alþingis og voru megindrættir niðurstöðu skýrslu Deloitte kynntar sem og sameiginlegt álit landshlutasamtakanna á möguleg almenn áhrif frumvarps sjávarútvegsráðherra á afkomu í sjávarútvegi í landshlutunum (Hlekkur hér, smellið). Seinna var síðan kallað eftir kynningu á sama efni inn í þingflokk Sjálfstæðisflokksins (Hlekkur hér, smellið).
Úttektin hefur verið tilefni umfjöllunar í fjölmiðlum, í að minnsta kosti þrisvar sinnum:
Á RÚV þann 19. október 2018 (Hlekkur), í Skessuhorni 29. október 2018 (Hlekkur) og í Mogganum 5. nóvember 2018 (Hlekkur).
…….
Sameiginlega umsögnin, dagsett 22. október 2018, var eftirfarandi:
Umsögn; frumvarp til laga um veiðigjald, 149. löggjafarþing mál 144.
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögn frá landshlutasamtökum sveitarfélaga í Norðvesturkjördæmi um frumvarp til laga um veiðigjöld, mál 144.
Fjórðungssamband Vestfirðinga, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fólu Deliotte ráðgjöf að vinna samantekt um áhrif veiðigjalda á fyrirtæki í Norðvesturkjördæmi. Greiningin náði til stærstu fyrirtækja í bolfiskvinnslu í kjördæminu eða þeirra fyrirtækja sem greiddu 81% af veiðigjöldum á þessu svæði. Deliotte lauk nýverið vinnu við skýrsluna og hefur hún verið töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum.
Samspil afkomu útgerða og samfélaga í Norðvesturkjördæmi.
Sjávarútvegur er víða í kjördæminu undirstöðuatvinnugrein og því hefur vöxtur og viðgangur greinarinnar víðtæk áhrif á flest öll sveitarfélög á svæðinu. Í áðurnefndri skýrslu kemur fram að staða sjávarútvegs versnaði mjög á milli áranna 2016 og 2017. Á árinu 2017 má sjá að tekjur fyrirtækjanna drógust saman um 19%, framlegð (ebita) lækkaði um 38% og hagnaður um 80%. Þetta sýnir svart á hvítu að fyrirtækin höfðu ekki bolmagn til að greiða háar upphæðir í veiðigjöld, en alls voru fyrirtækin að greiða 2,5 milljarða króna, álíka mikið og allar tekjur sveitarfélags með um 2500 íbúa. Skýrslan sýnir jafnframt fram á að þau fyrirtæki sem stunduðu botnfiskveiðar komu mun verr út hvað varðar veiðigjöldin, en fyrirtæki sem eru í veiðum á uppsjávarfiski.
Með hliðsjón af stöðu sjávarútvegsfyrirtækja í Norðvesturkjördæmi leggja landshlutasamtökin í kjördæminu áherslu á að veiðigjöldin þurfa að vera í takti við afkomu greinarinnar. Því fögnum við þeirri viðleitni sem fram kemur í frumvarpinu um að útreikningur veiðigjalda sé færður nær rauntíma og endurspegli afkomu fyrirtækjanna.
Í skýrslu Deliotte kemur einnig fram að sérstök lækkun veiðigjalda hafði umtalsverð áhrif á fyrirtæki í kjördæminu og áætla skýrsluhöfundar að framlegðin væri 7% lægri á árinu 2017 ef sérstakrar lækkunar hefði ekki notið við.
Með þessari lækkun var komið sérstaklega til móts við við skuldsett fyrirtæki. Þá kom frítekjumarkið litlum og meðalstórum fyrirtækjum til góða, en mikill fjöldi slíkra fyrirtækja er í Norðvesturkjördæmi. Við teljum því afar mikilvægt að leita leiða til að koma til móts við þessi fyrirtæki í lögunum um veiðigjöld og teljum að þær aðgerðir sem viðhafðar voru, lækkun vegna skuldsetningar og frítekjumarkið, hafi skilað árangri. Því teljum við mikilvægt að hækka frítekjumarkið og hlutfall skuldaafsláttar.
Fyrir utan þessi sterku byggðarök smábátaútgerðar, sem er gjarnan burðarás í viðkvæmustu sjávarbyggðunum eins og útnesjum þar sem atvinnutækifæri liggja í fáu öðrum greinum, eru önnur sterk rök. Félagsleg rök eru þarna vegna þess að sjómenn smábáta henta mjög nútíma fjölskyldulífi borið saman við sjómannsstörf á stærri skipum. Smábátarnir skila skipshöfn sinni heim á hverjum degi og vinnudagurinn oft á tíðum frekar stuttur og launin góð.
Umhverfisrök og loftlagsmál eru þarna líka þar sem smábátar nýttu einungis þriðjunginn af því olíumagni (eldsneyti) fyrir hvert veitt kíló af afla sem t.d. skuttogarar nota, ef marka má rannsókn Guðbergs Rúnarssonar frá 1997 og aftur 2004. Olíunotkun skuttogarar sem hafa verið smíðaðir á síðustu árum hefur minnkað verulega en samt má telja að þetta atriði skiptir máli í dag. Þá eru umhverfisáhrif krókabáta að öðru leyti mun minni en þeirra sem nota net svo fleira sé nefnt.
Markaðsverð á uppsjávartegundum upp úr sjó.
Á fundum sjávarútvegsráðherra til kynningar á viðkomandi frumvarpi var réttilega á það bent að erfitt yrði samkvæmt nýjum reikniramma frumvarpsins, að finna markaðsverð á uppsjávartegundum upp úr sjó þar sem ekkert markaðsverð væri til líkt og fyrir aðrar fisktegundir. Slíkt skapar tortryggni og ósætti á milli útgerðaflokka og landshluta ef verðmat er ekki unnið með gegnsæjum hætti. Tillaga er hér sett fram að verðmat verði unnið „afturábak“, með því að reikna svokallað skuggaverð (e. shadow price) á uppsjávartegundum upp úr sjó. Út frá þeirri aðferð ætti að nást einhver sátt um greiðslu veiðigjalds af uppsjávarveiðum í greininni.
Áhrif af markmiðum frumvarpsins gagnvart landssvæðum og krafa um nánari greiningu.
Skv. 1. grein er veiðigjald lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
Það er mat landshlutasamtaka í Norðvesturkjördæmi að markmið 1. greinar frumvarpsins séu ósanngjörn gagnvart samfélögum og sjávarútvegi í kjördæminu. Annarsvegar gagnvart útgerð og fiskvinnslu með vísan til skýrslu Deloitte sem leiðir í ljós hærri álögur á þá útgerðarflokka sem einkenna kjördæmið.
Hinsvegar leiðir slík gjaldtaka til mismununar á þeim gæðum sem veiðigjald færir íslensku samfélagi. Vísað er hér til að meginhluti af stjórnsýslu, rannsókna og eftirlits ríkisins er staðsett á höfuðborgarsvæðinu sem leiðir af sér að tekjur ríkis af veiðigjöldum renna nær allar á höfuðborgarsvæðið. Í annan stað þá eru veiðigjöld mun hærri á íbúa Norðvesturkjördæmi en yfir landið í heild.
Því er, með vísan til áhrifa á samfélög og umfjöllun í skýrslu Deolitte á útgerðir minni og meðalstórra útgerða, er hér sett fram sú krafa að áhrif frumvarpsins verði metin eftir útgerðarflokkum og kjördæmum. Í annan stað að verði gerð greining og lagðar fram tillögur, hvernig afrakstur veiðigjalda renni til sveitarfélaga í viðkomandi kjördæmi svo fulls jafnræðis sé gætt.
Fjórðungssamband Vestfirðinga
Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi
Páll Brynjarsson, framkvæmdastjóri