Unnið að tillögum um bætta þjónustu við aldraða á Vesturlandi

SSVFréttir

 

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi gáfu á síðasta ári út Velferðarstefnu Vesturlands þar sem fjallað var um öll velferðarmál í landshlutanum; heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og þjónustu við fatlaða einstaklinga, starfsendurhæfingu, æskulýðs- og forvarnamál og öldrunarþjónustu. Það má segja að stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hafi að undanförnu í auknum mæli farið í stefnumótunarvinnu fyrir Vesturland og í kjölfar fundar með yfirmönnum hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands kviknaði sú hugmynd að gott væri að fara yfir stöðuna í velferðarmálum. Markmiðið var að kanna hvað hægt væri að gera til að efla velferðarþjónustu á Vesturlandi og styrkja stöðu landshlutans gagnvart fjárveitingavaldinu. Meginverkefni hópsins sem vann skýrsluna var að vinna tillögu að heildstæðri velferðarstefnu fyrir Vesturland sem inniheldur framtíðarsýn, markmið og tillögu að aðgerðum til að nálgast þau markmið sem fram eru sett.

Í kjölfarið var ákveðið að skoða öldrunarmálin nánar og fara með þann málaflokk lengra. Var þá skipaður starfshópur sem er að skoða hvernig megi efla öldrunarmál á Vesturlandi og er verkefnið og vinna hópsins fjármögnuð af Sóknaráætlun Vesturlands. Starfshópinn skipa Bjarki Þorsteinsson frá Brákarhlíð í Borgarnesi, Svala Hreinsdóttir frá Akraneskaupstað, Ingveldur Eyþórsdóttir frá Skóla- og félagsþjónustu Snæfellinga og Þura Björk Hreinsdóttir frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Blaðamaður frá Skessuhorni settist niður með Bjarka og má sjá viðtal við hann í Skessuhorni vikunnar.

 

Bjarki Þorsteinsson framkvæmdastjóri í Brákarhlíð í Borgarnesi. Mynd: Skessuhorn