Tvö verkefni á Vesturlandi á sviði almenningssamgangna fá úthlutað 14 milljónum

SSVFréttir

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem eru veittir á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 36 milljónum króna úthlutað til sjö verkefna fyrir árin 2021 og 2022. Markmið með framlögunum er að styðja við áframhaldandi þróun almenningssamgangna um land allt. 

Tvö verkefni á Vesturlandi hlutu styrk: 

  • Snæfellsnes – samræmt leiðakerfi. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fær styrk til að vinna úr tillögum um samræmt leiðakerfi á Snæfellsnesi eftir fýsileikakönnun sem gerð var árið 2020. Tilgangurinn er að efla samgöngur á Snæfellsnesi. Styrkurinn nemur 2.000.000 kr.

Umsóknin var send inn í framhaldi af vinnu sem átti sér stað 2020 en þá fengu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) styrk úr byggðáætlun „Almenningssamgöngur um allt land“ til að þess að skoða hvort gerlegt væri að tengja saman annars vegar skóla- og tómstundaakstur og hins vegar almenningssamgöngur á Vesturlandi og gera úr þessu samræmt leiðakerfi.  VSÓ hefur unnið að þessu verkefni með SSV og nú liggja fyrir tillögur um samræmt leiðakerfi á Snæfellsnesi. Styrkurinn sem fékkst nú verður notaður til að  fara í frekari vinnu með þær tillögur sem liggja fyrir á Snæfellsnesi og velja þá tillögu sem sveitarfélögin vilja vinna að.  Vegagerðin hefur tekið jákvætt í samstarf og Fjölbrautarskóli Snæfellinga (FSN) er reiðbúinn í samstarf.

 

  • Borgarfjörður – samþætt leiðakerfi. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fær styrki til að hefja tilraunaverkefni sem tryggir að íbúar dreifbýlis í Borgarbyggð geti nýtt ferðir skólabíla til að sækja vinnu eða þjónustu. Styrkur nemur 12.000.000 kr. sem deilist á tvö ár.

Umsóknin var send inn í framhaldi af vinnu sem átti sér stað 2020 en þá fengu Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) styrk úr byggðáætlun „Almenningssamgöngur um allt land“ til að þess að skoða hvort gerlegt væri að tengja saman annars vegar skóla- og tómstundaakstur og hins vegar almenningssamgöngur á Vesturlandi og gera úr þessu samræmt leiðakerfi.  Styrkurinn sem fékkst nú er eins og fram kemur hér að ofan til tveggja ára og verður notaður til þess að fara af stað með tilraunaverkefni sem byggir á  samþættingu aksturs í Borgarfirði.  Fyrir liggur að Borgarbyggð muni opna skóla- og tómstundabíla sveitarfélagsins fyrir almenning þannig að almenningur geti keypt sér far með bílunum.  Þá verða teknar upp morgunferðir alla virka daga yfir vetrartímann frá Varmalandsskóla og Kleppjárnsreykjaskóla í Borgarnes.  Loks hefur Vegagerðin samþykkt að fjölga ferðum á leið 81 þannig að ekið verði alla virka daga yfir vetrartímann, auk þess sem upplýsingar um allar ferðir verða á upplýsingasíðum Strætó bs. 

Sjá nánar frétt á Stjórnarráð Íslands