Þjóðahátíð Vesturlands með breyttu sniði

SSVFréttir

Eins og í svo mörgum menningarverkefnum setti Covid19 strik í reikning viðburðahalds síðasta árs. Eitt af þessum verkefnum er hin árlega Þjóðahátíð Vesturlands sem Félag nýrra Íslendinga (Society of New Icelanders) heldur utanum.

En þau voru ekki af baki dottin og hafa sett saman hátíð með nýju sniði á Youtube. Þar getur ýmissa grasa og m.a. er hægt að sjá Vestlendinga frá ýmsum þjóðum elda rétti frá heimalandinu auk tónlistar-, dansatriða og fleira. Atriði koma m.a. frá Spáni, Skotlandi, Þýskalandi, Japan, Egyptalandi, Finnlandi, Afghanistan, Búlgaríu, Indlandi og Þýskalandi.

Mynd: Skjáskot af Youtube, Bollywood Iceland Chikini Chameli

Þjóðahátíð Vesturlands hefur hingað til verið haldin víðsvegar um landshlutann og er ljóst að það er mikill og verðmætur mannauður sem fylgir innflytjendum sem velja Vesturland sem heimili. Að sögn Pauline McCarthy, formanns Félags nýrra Íslendinga er skipulagning hátíðarinnar í raunheimum komin á skrið og verður haldin á haustdögum ef faraldurinn leyfir. Viðburðurinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Vesturlands og SSV óskar skipuleggjendum til hamingju með hátíðina.

Hlekkur á hátíðina