Stjórn SSV bókar um rekstur hjúkrunarheimila

SSVFréttir

Stjórn SSV ræddi stöðu hjúkrunarheimila á stjórnarfundi þann 28. apríl síðast liðinn.  Umræðan er í ljósi niðurstöðu skýrslu verkefnastjórnar um greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila og eftir umræðu samþykkti stjórn SSV svohljóðandi bókun:

Í nýrri skýrslu sem unnin var af verkefnisstjórn, skipaðri af heilbrigðisráðherra til að greina rekstur hjúkrunarheimila, kemur skýrt fram að reksturinn hefur verið vanfjármagnaður undanfarin ár. Í skýrslunni segir að á árunum 2017-2019 hafi 87% heimila verið rekin með halla og nemur heildarupphæðin á hallarekstrinum 3,5 milljörðum. Það er því ljóst að í óefni stefnir með rekstur heimilanna, ekki síst þegar fyrir liggur að nýir kjarasamningar og stytting vinnuvikunnar munu gera reksturinn enn þyngri.  Því er nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax.

 Stjórn SSV skorar á heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að ráðast nú þegar í aðgerðir til að leiðrétta stöðu hjúkrunarheimila.  Þegar þeirri leiðréttingu er lokið er brýnt að taka upp viðræður um framtíðar fyrirkomulag þjónustu við aldraða þar sem horft verði til tækifæra á lengri búsetu í eigin húsnæði, samspil heimahjúkrunar og heimaþjónustu og sveigjanlegri dagdvöl fyrir eldra fólk.