Stækkun gassöfnunarkerfis í Fíflholtum – skref í átt að grænni  framtíð

SSVFréttir

Sorpurðun Vesturlands hefur samkvæmt kröfum starfsleyfis starfrækt gassöfnunarkerfi á urðunarstað Fíflholts frá byrjun árs 2019. Þar sem áframhald hefur verið á urðun lífræns úrgangs var tekin sú ákvörðun að stækka kerfið til að auka afköst þess enn frekar.

Hauggas er samheiti yfir gróðurhúsalofttegundir sem falla til við urðun á lífrænum úrgangi. Gasið samanstendur aðallega af metani og koltvísýringi sem er skaðlegt umhverfinu vegna gróðurhúsaáhrifa.  Metan hefur 27 sinnum verri áhrif á loftslagsbreytingar en koltvísýringur og því mikilvægt að draga úr losun þess með brennslu ef ekki er hægt að nýta það á sjálfbæran hátt sem orkugjafa.

Árið 2018 var kannaður sá möguleiki að hefja söfnun á hauggasi í Fíflholtum en þá lék vafi á því hvort magnið væri nægjanlegt til að setja á laggirnar söfnunarkerfi.

Við rannsóknir kom í ljós að nægt gasmagn væri til staðar og því hafist handa við hönnun á gassöfnunarkerfi með kyndli til brennslu þar sem ekki reyndist hagkvæmt að meðhöndla það til annarrar nýtingar. Þegar ljóst var að áframhald yrði á urðun lífræns úrgangs í Fíflholtum var ákveðið að fylgja eftir stækkun urðunarstaðarins með dreifðara söfnunarkerfi.

Þessu verkefni var hrint af stað vorið 2024 og  lauk nú á dögunum. Boraðar voru tíu holur á svæðinu til viðbótar þeim tíu sem voru þegar í notkun. Gerðar voru rannsóknir á magni og tegund úrgangs og framkvæmdir útreikningar á mögulegri viðbótar gaslosun, í framhaldinu voru útfærðar staðsetningar og lokið við hönnun á kerfinu.

Pípur staðsettar í borholunum streyma gasinu í sérstakar söfnunarleiðslur og þaðan í brennslu til að koma í veg fyrir skaðleg umhverfisáhrif.

Það er ReSource International umhverfisráðgjafastofa sem hannar og smíðar gassöfnunarkerfið ásamt því að sinna eftirliti með gassöfnun í Fíflholtum.

Við óskum  Vestlendingum til hamingju með mikilvægan áfanga í loftslagsmálum.