Í maí fór fram vitundarvakningin „Hér er töluð alls konar íslenska“ er verkefni á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og fjármagnað að hluta úr Sóknaráætlun Vesturlands. Verkefnið gengur útá að gefa innlendum og erlendum færi á að tala íslensku eftir sinni færni og getu. Með því eru brotnir múrar með því að segja að það sé í lagi að tala allskonar íslensku og um leið efla meðvitund og þolinmæði innfæddra til þeirra sem eru að læra tungumálið og æfa sig, enda er ein meginforsenda inngildingar, valdeflingar og þátttöku í fjölmenningarlegu samfélagi tungumálið!
Samkvæmt íbúakönnununum landshlutanna eru landshlutasamtökin og ráðgjafar á þeirra vegum að sinna innflytjendum í ríkara mæli. Hlutfallslega fleiri úr þeirra röðum leita eftir aðstoð þangað en Íslendingar gera. Árið 2020 var þetta hlutfall jafnt eftir uppruna en hafði aukist meðal innflytjenda árið 2023 á meðan það stóð í stað meðal innfæddra.
Þetta staðfestir að með innflytjendum kemur víðara sjónarhorn á samfélagið og uppspretta nýsköpunarhugmynda og verkefna og ráðgjafar SSV munu halda áfram að taka á móti fólki sem talar alls konar íslensku.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta starfsfólks SSV með merki átaksins í barminum.