Nýverið veitti Sóknaráætlun Vesturlands fyrirtækinu arTTré ehf., sem er umsjónaraðili Fab-Lab smiðju Vesturlands á Akranesi, styrk að upphæð kr. 600.000.- arTTré mun nýta styrkinn til að undirbúa námskrá og námskeið þar sem farið verður í undirstöðuatriði stafrænar framleiðslutækni.
Meginmarkmið námskeiðsins er að kynna undirstöðuatriði stafrænnar framleiðslutækni auk ferilsins við að fá hugmynd og vinna hana áfram í frumgerð. Námskeiðinu er ætlað að efla og hvetja börn til að virkja sköpunarkraftinn og að hafa trú á eigin getu til framkvæmda.
Fjármagnið kemur úr áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands um Fjórðu iðnbyltinguna. Meginmarkmiðið með áhersluverkefninu var að framhaldsskólar á Vesturlandi gætu aðlagað námsframboð sitt að þeim þáttum sem einkenna Fjórðu iðnbyltinguna. Framhaldsskólarnir fengu allir styrk úr verkefninu og hafa nýtt það til að vinna að breytingum á námsskrá sinni eða bjóða upp á kennslu í áföngum eða verkefnum sem tengjast Fjórðu iðnbyltingunni. Einnig stutti verkefnið við ráðstefnu Menntaskóla Borgarfjarðar um menntun fyrir störf framtíðarinnar.
Það var því mjög gagnlegt að geta varið hluta af fjármagninu til að þess að styðja við námsefnisgerð og námskeið í stafrænni framleiðslutækni fyrir börn og ungmenni.