Andlát – Guðjón Ingvi Stefánsson fyrrverandi framkvæmdastjóri SSV

SSVFréttir

GUÐJÓN YNGVI VIÐ 50 ÁRA AFMÆLISHÁTÍÐ SSV 2019

Guðjón Ingvi Stefánsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) er látinn 82 ára að aldri.  Guðjón var ráðinn framkvæmdastjóri árið 1973 og starfaði hjá SSV fram til ársins 2000.

Haustið 2019 var haldið upp á fimmtíu ára afmæli Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi með fjölmennri samkomu í Hjálmakletti.  Í frétt um andlát Guðjóns í Skessuhorni rifjaði blaðið upp ávarp sem Guðjón flutti við þetta tækifæri þar sem hann fór stuttlega yfir sögu samtakanna sem hann var í forsvari fyrir í tæpa þrjá áratugi.  Margt hefur breyst í tímans rás. Þegar hann hóf störf voru sveitarfélögin á Vesturlandi 39 talsins, en nú eru þau 10. Aðstæður til reksturs voru gjörólíkar á þessum mótunarárum SSV, löngu fyrir tölvuvæðingu og sjálfvirkir símar ekki komnir í sveitir. Guðjón rifjaði upp að lagning slitlags á þéttbýlisstaði á Snæfellsnesi hafi verið eitt fyrsta átaksverkefnið sem SSV beitti sér fyrir í starfstíð sinni.  Þá rifjaði hann upp að fljótlega hafi verið farið að skoða framtíðarstað fyrir sorpurðun og á vettvangi samtakanna var urðunarstaður valinn í Fíflholtum á Mýrum og jörðin keypt.  Loks nefndi Guðjón að hann taldi það mikið happ fyrir SSV þegar samtökin komu sér upp húsnæði við Bjarnarbraut í Borgarnesi þar sem starfsemin fer enn fram.

Guðjón var SSV farsæll framkvæmdastjóri, fylginn sér og lagði gjörva hönd á plóg í fjölmörgum verkefnum varðandi jöfnun búsetuskilyrða á landsbyggðinni og stendur barátta hans fyrir jöfnun símakostnaðar þar hæst. Hann markaði spor á Vesturlandi sem við njótum enn.