Söguskilti afhjúpað að Leirá

SSVFréttir

Sumardaginn fyrsta var mikið um dýrðir að Leirá, þeim mikla sögustað í Hvalfjarðarsveit, en þá var afhjúpað söguskilti. Er skiltið eitt af fjórum söguskiltum sem menningarnefnd Hvalfjarðarsveitar er að standa fyrir að koma fyrir á völdum stöðum víðsvegar um sveitarfélagið, en áður hafði söguskilti verið afhjúpað við Saurbæjarkirkju og við Miðgarð.

Það var forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir sem afhjúpaði skiltið, en hún er beinn afkomandi Jóns Thoroddsen sem bjó á Leirá og samdi fyrstu þekktu skáldsögu Íslands, Pilt og stúlku. Við það tækifæri rifjaði Katrín upp fjölskyldusöguna og velti vöngum hvernig tilurð Pilts og Stúlku og seinna Manns og Konu kom til.

Að afhjúpun lokinni rakti Ásgeir Kristinsson ábúandi á Leirá ásamt börnum sínum Finni Ara, Írisi Jönu og Hafliða fjölbreytta sögu staðarins. Þá flutti kór Saurbæjarprestakalls nokkur lög í Leirárkirkju og gestum var boðið til veitinga að dagskrá lokinni.

Verkefnið er liður í verkefninu „Merking sögu og merkisstaða í Hvalfjarðarsveit“ og hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

 

Ásgeir Kristinsson ásamt börnum sínum, Finni Ara, Írisi Jönu og Hafliða flytja erindi um sögu Leirár við nýja skiltið.