Skýrsla Vífils Karlssonar ,,Margur er knár þó hann sé smár“

SSVFréttir

Í dag fór skýrslan „Margur er knár þó hann sé smár“ eftir Vífil Karlsson á heimasíðu SSV. Í henni er útskýrð ítrekuð óvenju ólík útkoma úr íbúakönnun landshlutanna þar sem borin voru saman nokkuð sambærileg fámenn landsvæði eins og Dala- og V-Húnavatnsýslur en V-Hún hefur komið mjög vel út úr könnuninni. Í reynd var þetta tilraun til að skoða hvort það mætti læra eitthvað af V-Hún til styrkingar samfélaginu í Dölunum. Þá var A-Hún líka tekið með í þessari rannsókn þar sem þeir hafa verið á pari við Dalina í íbúakönnuninni þrátt fyrir að vera töluvert fjölmennara samfélag með fjölbreyttari vinnumarkað og jákvæðar fréttir af uppbyggingu hafa borist þaðan undanfarin ár.

Dalabyggð

 

Meðal niðurstaðna var:

  • Sameining sveitarfélaga í V-Hún virðist hafa verið vel heppnuð og á vissan hátt er henni ekki lokið í Dölunum.
  • Staða kvenna er óvenju sterk í V-Hún sem virðist mega útskýra m.a. af góðum vinnumarkaði (t.d. engin marktækur launamunur kynja), þjónustu og menningu. Á vissan hátt má segja að lengi hafi ríkt meiri stöðugleiki eða vissa í V-Hún en á hinum tveimur svæðunum.
  • V-Hún ræður meira yfir helstu björgum sínum. Hlutfallslega fleiri fyrirtæki eru í eigu heimamanna í V-Hún en á hinum stöðunum og kom það sterkt fram sem mikilvægur þáttur.
  • Í V-Hún ríkir meiri samkennd og samheldni en á hinum stöðunum, félags og menningarlíf er öflugt og frumkvæði og framkvæmd viðburða virðist dreifast nokkuð jafnt á íbúana. Í samfélaginu er meiri jákvæðni til staðar en á hinum stöðunum. Hvammstangi
  • Lærdómur sem rannsóknin færir:
  • Það virðist mega ná miklum árangri í byggðamálum með því að vinna með hugarfar íbúanna.
  • Athygli vakti hvað heimamönnum þótti mikilvægt að hafa eignarhald á lykilfyrirtækjum samfélagsins.
  • Áföll í atvinnumálum virðast geta haft skaðleg langvarandi áhrif á samfélög.
  • Efnahagslegur jöfnuður virðist stuðla að sátt og samlyndi innan samfélaga.
  • Sameining sveitarfélaga getur verið heillarík leið til að efla samfélög.

Greiningin byggir á skoðanakönnun þar sem rúmlega 16.000 manns tóku þátt árin 2016, 2017 og Covid-árið 2020. Hún byggir einnig á rýni annarrar tölfræði og síðast en ekki síst þremur rýnifundum með íbúum á viðkomandi landsvæðum og stöku viðtölum. Skýrsluna í heild sinni má finna hér